• þri. 20. des. 2011
  • Landslið

Vináttulandsleikur gegn Japan 24. febrúar

Nagai-vollurinn-i-Osaka
Nagai-vollurinn-i-Osaka
Knattspyrnusambönd Íslands og Japans hafa komist að samkomulagi um karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik í Japan, 24. febrúar næstkomandi.  Leikið verður á Nagai vellinum í Osaka en á þessum velli var m.a. leikið á HM í Japan/Suður Kóreu árið 2002.

Þetta er í þriðja skiptið sem þessar þjóðir mætast hjá A landsliðum karla og hafa Japanir farið með sigur af hólmi í bæði skiptin.  Fyrst árið 1971 þegar þjóðirnar léku á Laugardalsvelli, 0 – 2 og seinna árið 2004 þegar þjóðirnar léku í Manchester, 2 – 3.

Leikurinn mun bera heitið „Kirin Challenge Cup“ en Japanir mæta svo Úsbekistan í undankeppni HM þann 29. febrúar.  Það verður síðasti leikur Japans í sínum riðli og með sigri tryggja þeir sér efsta sætið.  Þeir hafa þó tryggt sér sæti í næstu umferð undankeppni Asíu fyrir HM. 

Þetta er annar vináttulandsleikurinn sem skipulagður er í febrúar, því Ísland mætir Svartfjallalandi ytra þann 29. febrúar næstkomandi.  Þetta verða því fyrstu verkefni nýs landsliðsþjálfara, Lars Lagerbäck, sem tekur formlega við liðinu nú um áramótin.

Lars Lagerbäck er spenntur fyrir verkefninu.

Þetta verður auðvitað fyrsti leikurinn minn með liðið og þó svo að ég geti ekki valið alla leikmenn sem ég myndi vilja í þennan leik, þar sem þetta er ekki alþjóðlegur leikdagur, þá er frábært að fá þennan leik og ég er mjög ánægður.  Væntanlega verða breytingar á hópnum fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi og ég vonast til að geta skoðað sem flesta leikmenn.  Í raun hentar þetta mjög vel, því ég fæ þarna tækifæri til að skoða stóran hluta þeirra leikmanna sem mér stendur til boða að velja í framhaldinu.  Ég er mjög ánægður með að fá þessa tvo leiki svona snemma, þetta er mjög jákvætt og KSÍ hefur staðið vel að málum í þessari vinnu.“

„Þarna mun mér gefast tækifæri til að hitta leikmennina, fylgjast með þeim og ræða við þá, sjá þá á æfingum og í leikjum, sjá hvernig þeir eru í hóp og hvernig skapgerð menn hafa, hvaða eiginleika.  Skapgerð og liðsheild er eitthvað sem ég legg mikið upp úr.  Það verður spennandi að sjá hvernig leikmennirnir bregðast við mínum hugmyndum um leikskipulag og leikaðferð.  Æfingarnar munu snúast mikið um taktík og þessir tveir leikir gefa okkur frábært tækifæri til að skoða þessi atriði.“