• fös. 09. des. 2011
  • Landslið

Heiðar og Margrét Lára valin knattspyrnufólk ársins

Leikmannaval KSÍ
Leikmannaval_logo

Leikmannaval KSÍ hefur valið Heiðar Helguson og Margréti Láru Viðarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2011. Þetta er í áttunda skiptið sem að knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ. Það eru fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, er velja knattspyrnufólk ársins.  Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin hjá körlum og konum.

Þau sem lentu í þremur efstu sætunum í Leikmannavali KSÍ 2011 hjá körlum og konum eru eftirfarandi:

Knattspyrnumaður ársins 2011

Heiðar HelgusonHeiðar Helguson hefur átt góðu gengi að fagna með liði sínu QPR í ensku úrvalsdeildinni.  Hann var einn af lykilmönnum liðsins sem vann sannfærandi sigur í Championship deildinni.  Heiðar skoraði 13 mörk á tímabilinu og var annar markahæsti leikmaður liðsins.  Heiðar gerði nýjan samning við félagið í sumar til eins árs.  Eftir að hafa komið fremur lítið við sögu í byrjun tímabils hefur Heiðar gripið tækifærið báðum höndum og er markahæsti leikmaður QPR með sex mörk.  Hann hefur skorað í fjórum heimaleikjum í röð og jafnað þar með félagsmet í úrvalsdeildinni.  Heiðar hefur samtals skorað 26 mörk í 87 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Heiðar lék þrjá landsleiki á árinu og eru landsleikirnir orðnir 55 talsins og mörkin tólf. 

2. sæti karla

Úr leik Íslands og Þýskalands - Kolbeinn Sigþórsson með knöttinnKolbeinn Sigþórsson lék frábærlega með AZ Alkmaar á síðasta tímabili og var langmarkahæsti leikmaður liðsins, sem hafnaði í fjórða sæti deildarinnar, með 15 mörk.  Hann skoraði t.a.m. fimm mörk í leik í janúar síðastliðnum.  Í júlí keypti hollenska stórliðið, Ajax, Kolbein til liðs við sig fyrir 4 milljónir Evra.  Kolbeinn hóf ferilinn af krafti hjá Ajax, vann sér strax sæti í liðinu og skoraði 5 mörk í fyrstu 8 leikjunum.  Í byrjun október varð Kolbeinn fyrir því óhappi að ökklabrotna og verður frá keppni framyfir áramót.

Kolbeinn lék þrjá landsleiki á árinu og skoraði eitt mark, sigurmarkið gegn Kýpur á heimavelli.  Hann hefur því skorað fjögur mörk í átta landsleikjum.  Hann lék einnig með U21 landsliðinu í úrslitakeppninni í Danmörku og skoraði þar í sigurleik gegn Dönum.

3. sæti karla

Úr leik Íslands og Þýskalands - Gylfi Sigurðsson með knöttinnGylfi Þór Sigurðsson var markahæsti leikmaður Hoffenheim í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili sem vakti töluverða athygli þar sem hann átti ekki fast sæti í byrjunarliðinu.  Hann skoraði 9 mörk fyrir Hoffenheim á síðasta tímabili en liðið hafnaði í 11. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar.  Hann átti við meiðsli að stríða í upphafi þýsku deildarinnar í haust en er smám saman að komast á fulla ferð.

Gylfi hefur fest sig í sessi sem einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins og lék þrjá landsleiki á árinu og skoraði í þeim eitt mark.  Hann var einnig í íslenska U21 landsliðinu sem lék í úrslitakeppninni í Danmörku á árinu.

 

Knattspyrnukona ársins

Margrét Lára Viðarsdóttir skorar úr vítaspyrnu í leik gegn EistlandiMargrét Lára Viðarsdóttir átti sitt besta tímabil í Svíþjóð.  Hún varð önnur af markadrottningum deildarinnar, skoraði 16 mörk í 21 leik og var lykilmaður Kristianstad í sænsku deildinni.  Þessum árangri náði hún þrátt fyrir að meiðsli væru að trufla hana við æfinga og keppni.  Eftir síðasta leik hennar með sænska liðinu var tilkynnt að Margrét Lára hefði samið við þýska stórliðið Turbine Potsdam.  Potsdam er eitt allra sterkasta félagslið heims, hefur t.a.m orðið þýskur meistari þrjú ár í röð og Evrópumeistari 2005 og 2010 og hefur tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna.

Margrét Lára var sem fyrr lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu, sem trónir á toppi síns riðils í undankeppni EM og í níu landsleikjum á árinu skoraði hún átta mörk.  Landsliðsmörkin eru því orðin 63 talsins í 77 leikjum.

2. sæti

Sara Björk GunnarsdóttirSara Björk Gunnarsdóttir sló í gegn á sínu fyrsta tímabili með sænska liðinu Malmö en þangað kom hún frá Breiðabliki.  Hún skoraði 12 mörk í 21 leik og varð sjötta markahæst í deildinni.  Malmö varð sænskur meistari með Söru innanborðs eftir hörkukeppni þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu umferðinni.  Malmö hefur einnig tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna.

Sara var sem fyrr í lykilhlutverki kvennalandsliðsins, lék níu landsleiki á árinu og skoraði eitt mark.  Hún lék sinn fertugasta landsleik á þessu ári, aðeins 21 árs að aldri,  en alls eru landsleikirnir orðnir 43 talsins og mörkin tíu.

3. sæti

Þóra B. HelgadóttirÞóra Helgadóttir var aðalmarkvörður sænsku meistaranna í Malmö og hefur unnið sænska titilinn bæði tímabilin sín hjá Malmö.  Hún var einn af máttarstólpum liðsins sem, ásamt því að vinna sænska titilinn annað árið í röð, hefur tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna.

Þóra er einnig aðalmarkvörður íslenska kvennalandsliðsins og lék hún 7 landsleiki á árinu og fékk einungis á sig tvö mörk í þeim.  Þóra lék sinn 80. landsleik á árinu og hefur leikið alls 81 landsleik og er hún þriðja leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.