• mán. 28. nóv. 2011
  • Landslið

A karla - Vináttulandsleikur gegn Svartfellingum 29. febrúar

A landslið karla
ksi-Akarla

Knattspyrnusambönd Íslands og Svartfjallalands hafa komist að samkomulagi um að karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik miðvikudaginn 29. febrúar 2012.  Leikið verður í Podgorica í Svartfjallalandi.  Þetta er í fyrsta sinn sem þessar þjóðir mætast á knattspyrnuvellinum.

Þrátt fyrir mikla knattspyrnuhefð í Svartfjallalandi þá er landslið þjóðarinnar tiltölulega nýtt af nálinni en Svartfjallaland varð sjálfstætt í júní 2006 eftir að hafa rofið samband við Serba.  Karlalandsliðið var því í 199. sæti styrkleikalista FIFA í júní 2007 en fjórum árum síðar, júní 2011, var liðið komið upp í 16. sæti listans.  Þeir hafa heldur sigið niður listann upp á síðkastið og eru nú í 51. sæti listans.

Árangur Svartfellinga í undankeppni EM 2012 var mjög góður og hafnaði liðið í öðru sæti G riðils á eftir Englendingum.  Svartfjallaland mætti Tékklandi í umspili um sæti í úrslitakeppninni en þar höfðu Tékkar betur. 

Þetta verður fyrsti landsleikur Íslands undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Lars Lagerbäck, en hann hefur formlega störf nú um áramótin.