• mán. 07. nóv. 2011
  • Fræðsla

Vel heppnað endurmenntunarnámskeið

John Peacock, fyrrum yfirmaður knattspyrnuakademíu Derby County, mun kenna á KSÍ VI í Lilleshall
John_Peacock
Um síðastliðna helgi stóð KSÍ fyrir endurmenntunarnámskeiði fyrir þjálfara sem hafa svokallaða UEFA A þjálfaragráðu.  Hingað til lands komu þeir Dick Bate og John Peacock en báðir starfa þeir hjá enska knattspyrnusambandinu.  Bate sem Elite Coaching Manager og Peacock sem Head of Coaching ásamt því að þjálfa U17 landslið Englands og vera yfirmaður UEFA Pro Licence námskeiðsins á Englandi.
 
Á námskeiðið mættu í heildina 44 þjálfarar og ekki var annað að heyra á mönnum en að vel væri látið af leiðsögn þeirra Bate og Peacock.  Meginhluti námskeiðsins fór fram í Kórnum í Kópavogi en þar fór bæði fram bókleg og verkleg kennsla á föstudeginum og laugardeginum. Sunnudagurinn hófst síðan í höfuðstöðvum KSÍ áður en haldið var í Egilshöllina.  En mikill meirihluti námskeiðsins var verklegur þar sem þeir Bate og Peacock gátu notast við hina ýmsu hópa leikmanna í sinni kennslu.
 
Knattspyrnusambandið vill að endingu koma á framfæri þakklæti til Breiðabliks, HK, Selfoss og þjálfara og leikmanna í U17 og U19 ára landsliðum karla.  Án þeirra hefði námskeiðið aldrei gengið eins vel og raunin varð.  KSÍ vill jafnframt þakka öllum þeim þjálfurum sem sóttu námskeiðið fyrir gott og lærdómsríkt námskeið.