• mán. 31. okt. 2011
  • Lög og reglugerðir

Breytingar á reglugerðum KSÍ - Samþykktar af stjórn KSÍ 27. október

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum þann 27. október sl. breytingar á reglugerðum KSÍ. 

Samþykkt var ný leyfisreglugerð KSÍ sem tekur þegar gildi og gildir því fyrir næsta ferli leyfiskerfis.  Leyfisreglugerðina er að finna hér á heimasíðu KSÍ á íslensku og ensku auk þess sem eintök verða send á þau félög sem undirgangast leyfiskerfið 2012. 

Reglugerð KSÍ um aga – og úrskurðarmál

Í samræmi við þær breytingar sem gerðar hafa verið á leyfisreglugerð KSÍ samþykkti stjórn KSÍ eftirfarandi breytingar á reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.  Ný grein 14 kemur inn í kafla IV og taka greinar sem á eftir koma í kafla V ný númer í samræmi við breytingarnar:

14.gr.  Leyfiskerfi KSÍ

14.1    Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ ákveður viðurlög við einstökum brotum á leyfiskerfi KSÍ að fengnum viðeigandi upplýsingum frá leyfisstjórn, sbr. það sem fram kemur hér í greininni.

14.2     Eftirfarandi refsiákvæði eiga við um Leyfiskerfi KSÍ:

14.2.1  Starfsnefndir og ráð.

Einstaklingar, sem eru í starfsnefndum eða ráðum sem tengjast leyfiskerfinu, eða hafa tekið að sér að vinna ákveðin verkefni fyrir leyfisstjórn og brjóta þann trúnað, sem þar er kveðið á um, skulu hljóta áminningu frá KSÍ og víkja úr öllu starfi, nefndum og ráðum sem tengjast leyfiskerfinu.

14.2.2  Tímamörk ekki uppfyllt.

Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum.  Við ákvörðun þeirra skal taka mið af því hve alvarlegt brotið er.  Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:

-  Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr 2.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 50.000.

-  Áminning og sekt; við ítrekað brot skal skal beita dagsektum að upphæð kr 5.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 100.000.

-  Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.

Ítrekunarkvöð fellur niður ef tímamörk hafa verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.

14.2.3  Röng leyfisgögn.

Félag, sem verður uppvíst að því að hafa lagt fram röng eða fölsuð gögn/skjöl með umsókn um þátttökuleyfi, skal sæta viðurlögum.  Við ákvörðun þeirra skal taka mið af því hve alvarlegt brotið er.  Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:

-  Viðvörun og sekt, að upphæð allt að kr 100.000.

-  Áminning og sekt, að upphæð allt að kr 200.000.

-  Stigatap; ef brotið telst alvarlegt og vísvitandi er jafnframt heimilt að draga allt að 6 stig frá félaginu í deildarkeppninni.

-  Afturköllun þátttökuleyfis; við mjög alvarlegt og ítrekað brot getur KSÍ afturkallað þátttökuleyfi félagsins í deildinni, og hefur þar með heimild til að vísa félaginu úr deildinni til loka keppnistímabilsins.  Jafnframt getur félagið ekki tekið þátt í Evrópukeppni.  Félag, sem hefur verið vísað úr deild til loka keppnistímabils, skal leika einni deild neðar að ári.

14.2.4  Forsendur sem leiða til viðurlaga ef þær eru ekki uppfylltar.

Ef forsenda er ekki uppfyllt, sem er skilgreind þannig að slíkt leiðir aðeins til viðurlaga, sbr. greinar 16.2 og 16.3 í Leyfisreglugerð KSÍ, skal taka mið af eftirfarandi viðurlögum:

-  Fyrsta skipti, viðvörun.

-  Annað skipti, áminning og sekt að upphæð allt að kr 50.000.

-  Eftir það, áminning og sekt að upphæð allt að kr 100.000.

Ítrekunarkvöð fellur niður ef forsendan hefur verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.

14.2.5  Frekari viðurlög.

Frekari viðurlög geta átt við í sérstökum tilfellum, eins og að skylda félag til að senda réttindalausan þjálfara á þjálfaranámskeið til að afla sér tilskilinna réttinda innan ákveðinna tímamarka, o.s.frv.

Greinargerð: Með breytingunni færast refsiákvæði og viðurlög tengd Leyfisreglugerð KSÍ úr leyfisreglugerðinni í aga- og úrskurðarmálareglugerðina.  Efnislega eru breytingarnar litlar því að þessi málaflokkur var undir Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ þó að ákvæðin væru í leyfisreglugerðinni.

Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót

Í samræmi við þær breytingar sem gerðar hafa verið á leyfisreglugerð KSÍ samþykkti stjórn KSÍ eftirfarandi breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.  Breyting er gerð á ákvæði 23.1.10. og inn kemur nýtt ákvæði 23.1.11., önnur ákvæði sem á eftir koma taka ný númer í samræmi við breytingarnar.

23.1.10.  Ef lið dregur sig úr eða er vísað úr keppni, má það hefja þátttöku í 3. deild á næsta leikári. Ef um er að ræða lið í Pepsi-deild, 1. eða 2. deild, skal almenna reglan vera að liðið í 3. sæti næstu deildar fyrir neðan flytjast upp um deild.  Ef slíkt er afleiðing þess að þátttökuleyfi hefur ekki verið veitt eða dregið tilbaka samkvæmt leyfiskerfi KSÍ, skal þó farið eftir næstu grein, 23.1.11.

23.1.11.  Ef félag fær ekki viðeigandi stig af þátttökuleyfi í hefðbundnu umsóknarferli skv. leyfiskerfi KSÍ skal fara með flutning liða milli deilda og þátttöku þeirra í Íslandsmótinu samkvæmt eftirfarandi:

a)  Leyfisumsækjandi í efstu deild, sem ekki hlýtur þátttökuleyfi, skal leika í 1. deild á leyfistímabilinu/keppnistímabilinu ef hann uppfyllir skilyrði til þátttökuleyfis í 1. deild, en ella taka sæti í 2. deild.  Leyfisumsækjandi í 1. deild, sem ekki hlýtur þátttökuleyfi, skal leika í 2. deild á keppnistímabilinu.

b)  Ef sæti losnar í efstu deild vegna þess að umsókn um þátttökuleyfi var hafnað skal liðið, sem féll úr deildinni árið áður og var í næstneðsta sæti, taka lausa sætið ef það uppfyllir skilyrði til þátttökuleyfis í efstu deild á leyfistímabilinu, ella liðið sem varð í neðsta sæti, og síðan liðið sem varð í 3. sæti í 1. deild, o.s.frv. 

c) Ef sæti losnar í 1. deild vegna þess að umsókn um þátttökuleyfi var hafnað skal liðið sem féll úr deildinni árið áður og var í næstneðsta sæti, taka lausa sætið ef það uppfyllir skilyrði til þátttökuleyfis í 1. deild, ella liðið sem varð í neðsta sæti, og síðan liðið sem varð í 3. sæti í 2. deild, o.s.frv.

Greinargerð:  Með breytingunni færast ákvæðin um hvaða félög skuli taka laus sæti í efstu deildum karla vegna ákvörðunar um að félag/félög fái ekki þátttökuleyfi í efstu deildunum úr  Leyfisreglugerð KSÍ í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót..  Efnislega er ekki um neinar breytingar að ræða.  Þessar ákvarðarnir eru teknar í apríl og því verður ferlið að ganga hratt og nokkuð tryggt að þau félög, sem taka laus sæti, uppfylli skilyrði leyfiskerfisins. Þess vegna er eðlilegt að þau félög, sem fóru niður árið áður, gangi fyrir því, þar sem reikna má með þau uppfylla skilyrðin.

Reglugerð KSÍ um knattspyrnudómara og eftirlitsmenn

Stjórn KSÍ samþykkti eftirfarandi breytingar á ákvæðum 4.4. og 4.5. í reglugerð KSÍ um knattspyrnudómara og eftirlitsmenn:

Núverandi ákvæði sem falla út:

4.4. Landsdómarar skulu gangast undir og standast skriflegt próf í dómarafræðum og sérstakt þolpróf dómaranefndar KSÍ. Þolpróf felur í sér eftirfarandi hlaup í þessari röð:

6 sinnum 40 m sprettir,

20 sinnum 150 m hlaup.

Dómarar skulu standast eftirfarandi kröfur FIFA fyrir landsdómara:

hver 40 m sprettur: hámarkstími 6,4 s (dómarar) og 6,2 s (aðstoðardómarar),

hvert 150 m hlaup: hámarkstími 30 s, hvíld milli hlaupa 40 s (dómarar) og 45 s (aðstoðardómarar).

4.5. Milliríkjadómarar skulu standast kröfur FIFA fyrir milliríkjadómara. Dómaranefnd KSÍ er heimilt að auka kröfur til landsdómara A til samræmis við þær kröfur FIFA.

Inn koma ný ákvæði:

4.4. Landsdómarar skulu gangast undir og standast skriflegt próf í dómarafræðum og regluleg þolpróf skv. ákvörðun dómaranefndar KSÍ.

4.5. Milliríkjadómarar skulu standast kröfur FIFA fyrir milliríkjadómara. Dómaranefnd KSÍ er heimilt að auka kröfur til dómara í Pepsi-deild til samræmis við þær kröfur FIFA.

Greinargerð:  Ekki er ástæða til þess að hafa inni í reglugerð framkvæmd þolprófa dómara þar sem þau taka breytingum eftir kröfum UEFA og FIFA og er það því í höndum dómaranefndar að ákvarða með hvaða hætti þolpróf fara fram.

Ef frekari upplýsinga er óskað þá vinsamlegast hafið samband við

framkvæmdastjóra KSÍ.