• lau. 22. okt. 2011
  • Landslið

A kvenna - Þrjú dýrmæt stig flutt frá Ungverjalandi

Byrjunarlið Íslands gegn Belgíu
Iceland-womens

Íslenska kvennalandsliðið vann góðan útisigur á Ungverjum í dag en leikurinn var í undankeppni EM.  Lokatölur urðu 0 - 1 og var það Dóra María Lárusdóttir sem að skorað mark Íslands á 68. mínútu.  Mikil barátta einkenndi leikinn og ekki litu mörg færi dagsins ljós.

Fyrri hálfleikur fór rólega af stað en íslenska liðið tók þó fljótt yfirhöndina og réð ferðinni mestan hluta hálfleiksins.  Færin sem sköpuðust voru ekki mörg og Margrét Lára komst næst því að skora á 34. mínútu en varnarmenn Ungverja komust í veg fyrir skotið.  Undir lok hálfleiksins sóttu heimastúlkur í sig veðrið og  þurfti Þóra að taka einu sinni á stóra sínum til þess að koma í veg fyrir að Ungverjar kæmust yfir.

Þóra var aftur í sviðsljósinu í byrjun seinni hálfleiks þegar hún bjargaði glæsilega eftir að sóknarmaður Ungverja og Þróttar, Fanny Vago, komst ein inn fyrir vörn Íslands.  Seinni hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu og hljóp nokkur harka í leikinn.  Okkar stelpur fengu að líta gula spjaldið í þrígang í seinni hálfleiknum hjá þýska dómaranum enda ekkert gefið eftir.  Baráttan kom nokkuð niður á flæði í sóknarleiknum og sköpuðu stelpurnar ekki mikið af færum.    

Það var hinsvegar Dóra María Lárusdóttir sem braut ísinn á 68. mínútu eftir mikinn atgang í teignum.  Markvörður Ungverja varði skalla frá Margréti Láru en Dóra María kom boltanum yfir línuna eftir mikla baráttu.  Það reyndist vera eina mark leiksins og gátu stelpurnar fagnað stigunum þremur í leikslok.  Margrét Lára komst svo í mjög gott færi skömmu eftir markið en skaut boltanum hárfínt framhjá. 

Í heilt yfir var leikurinn ekkert sérstaklega leikinn af hálfu stelpnanna en ungverska liðið veitti þeim svo sannarlega verðuga mótspyrnu.  Stigin þrjú hinsvegar dýrmæt í baráttunni um að komast í úrslitakeppni EM í Svíþjóð því þangað stefna stelpurnar.

Það er skammt stórra högga á milli því liðið heldur á morgun til Belfast en leikið verður við Norður Íra í undankeppni EM á miðvikudaginn.

Riðill Íslands