• fös. 14. okt. 2011
  • Landslið

U17 kvenna - Nánari umfjöllun um leikinn gegn Skotum

Byrjunarlið Íslands gegn Austurríki í undankeppni EM, október 2011
2011-U17-kvenna-Byrjunarlid-gegn-Austurriki-7.-oktober

Íslenska U-17 ára landslið kvenna í knattspyrnu tók í dag á móti skosku stelpunum í síðasta leik liðanna í undankeppni Evrópumótsins. Fyrir leikinn voru þetta efstu liðin í riðlinum. Ísland með 6 stig og Skotland með 4 stig. Því var ljóst að um hreinan úrslitaleik var að ræða þar sem Íslendingum nægði jafntefli.

Enn og aftur var leikið í rigningu og alveg óhætt að segja að það henti báðum liðum ágætlega. Skotar byrjuðu betur, áttu fyrsta skotið og fyrsta hornið. Eftir það tóku Íslendingar leikinn yfir að stærstum hluta og á 7. mínútu opnuðu þær skosku vörnina upp á gátt. Þá átti Ingunn góða stungu sendingu inn á Telmu sem hljóp vörn andstæðinganna af sér, en skoski markmaðurinn varði vel gott skot frá Telmu. Mínútu síðar átti Svava skot sem var varið í stöng og aftur fyrir. Upp úr því horni skallaði Guðrún boltann rétt framhjá.

Á 11. mínutu áttu íslensku stelpurnar mjög góða sókn sem endaði með því að Hanna gaf á Láru, en fínt skot hennar fór yfir. Mínútu síðar áttu skotar skot framhjá. Nokkrum andartökum seinna var ein skoska stúlkan að sleppa í gegn, en Lísbet kom út á móti og varði vel ágætis skot hennar.

Á 15. mínútu leiksins fengu Skotar hornspyrnu þar sem Telma bjargaði á línu í kjölfarið var hreinsað fram á Svövu sem tók frábæran sprett með boltann upp hægri kant. Gaf síðan boltann á Glódísi sem framlengdi í fyrsta á Hönnu sem kláraði færið af mikilli yfirvegun og kom Íslandi í 1-0. Frábært mark hjá öllum sem hlut áttu að máli og gaman að sjá mark sem tók ca 12 sekúndur frá björgun á línu þar til boltinn endaði í neti andstæðinganna.    

Eftir markið færðist ró yfir leikinn og Íslendingar stjórnuðu ferðinni af nokkurri yfirvegun. Skotar áttu skot og skalla framhjá en voru að engu leiti að ógna marki Íslendinga. Í hálfleik kom Berglind inn fyrir Lísbet í markið.

Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik átti Telma frábæran sprett upp kantinn. Tók tvær á og setti góðan bolta fyrir á kollinn á Svövu og frábærum skalla hennar var bjargað á línu. Tíu mínútum síðar stal Lára boltanum og sendi í fyrsta á Telmu sem kom boltanum inn á Hönnu, en varnarmaður náði að bjarga í horn á síðustu stundu. Úr horninu átti Telma skot í varnarmann.

Eftir þetta færðu Skotar sig framar á völlinn og áttu nokkra ágætis sóknartilburði. Á 58. mínútu kom Ella Dís inn fyrir Rakel og fór í bakvörðinn, en Berglind Rós fór inn á miðju. Berglind þurfti aðeins eina mínútu til að finna sig í stöðunni. Hún tók boltann niður, lék fimm metra áfram og lét vaða á markið af um 30 metra færi og boltinn söng í netinu rétt undir slánni og gjörsamlega óverjandi fyrir markmann skota. Staðan orðin 2-0 fyrir Ísland og stelpurnar í nokkuð góðum málum.

Tveimur mínútum síðar áttu Skotar góða sókn en Berglind Hrund var vel með á nótunum í markinu og varði vel. Mínútu síðar þurfti hún aftur að grípa inn í og gerði mjög vel áður en skotar náðu að skora. Á 70 mínútu fór Telma útaf lítillega meidd og inná kom Viktoría á miðju og Berglind Rós fór út á kant og leysti þar með sína þriðju stöðu í leiknum. Á 72. mínútu tók leikmaður nr 10 hjá Skotum boltann niður fimm metrum fyrir utan teig og nelgdi honum í netið af miklu öryggi. Flott mark, óverjandi fyrir Berglindi Hrund í markinu og staðan orðin 2-1.

Tveimur mínútum síðar áttu Íslendingar góða sókn, Viktoría gaf boltann út í horn á Berglindi Rós, hún tók eina á og sendi boltann fyrir á Láru sem skaut í fyrsta rétt fyrir utan markteig en á einhvern ótrúlegan hátt náði markmaður skota að verja. Á 75. mínútu tók leikmaður nr 9 hjá Skotum boltann niður og smellti honum í netið. Ekkert ósvipað mark og það fyrra og þannig lítið við því að gera. Staðan skyndilega orðin 2-2 og spennan í hámarki því ef skotar myndu setja eitt enn færu þeir áfram en ekki við.

Á 77. mínútu átti Viktoría gott skot frá vítateigshorni sem var vel varið. Á lokamínútunni átti Berglind Rós góðan sprett upp kantinn, gaf fyrir á Hönnu, en skalli hennar úr erfiðu færi var vel varinn. Í uppbótartíma náði Glódís boltanum, gaf á Berglindi Rós og fékk boltann í fyrsta til baka. Þar tók hún eina á og skaut boltanum rétt yfir. Góður dómari leiksins flautaði svo leikinn af í kjölfarið og Íslendingar því komnir áfram í evrópukeppninni, en skotar sátu eftir með sárt ennið.

Varnarleikur Íslendinga var til fyrirmyndar alla keppnina. Óhætt er að segja að aldrei opnaðist vörn íslendinga að neinu ráði og komu þau þrjú mörk sem við fengum á okkur úr skotum fyrir utan eða af vítateigslínu. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland tryggir sig áfram í milliriðil í Evrópukeppninni og óhætt að segja að í liðinu séu margar mjög efnilegar stúlkur.