• fös. 07. okt. 2011
  • Landslið

Átta marka leikur í Portúgal

EURO 2012
euro-2010-logo-black-75p

Íslendingar töpuðu lokaleik sínum í undankeppni EM en leikið var gegn Portúgal í Porto.  Lokatölur urðu 5 - 3 fyrir heimamenn sem leiddu 3 - 0 í leikhléi.

Íslendingar byrjuðu fyrri hálfleikinn af krafti og Sölvi Geir Ottesen átti góðan skalla eftir innkast Arons Einars Gunnarssonar sem markvörður Portúgala varði frábærlega í hornspyrnu.  Upp úr hornspyrnunni barst boltinn til Hallgríms Jónassonar sem var í góðu færi en heimamenn björguðu í hornspyrnu. 

Fyrsta mark leiksins kom fjórum mínútum síðar og þar voru heimamenn á ferðinni með mark eftir hornspyrnu.  Annað mark Portúgala kom á 21. mínútu eftir slæm mistök í vörn íslenska liðsins.  Þriðja markið kom á síðustu mínútu fyrri hálfleiks en í millitíðinni hafði Birkir Bjarnason fengið gott færi en skotið framhjá.  Staðan því ekki björt í leikhléi og alls ekki í takt við gang leiksins í fyrri hálfleiknum því íslenska liðið hafði leikið ágætlega.  Portúgalir eru hinsvegar með gríðarlega snjalla leikmenn innanborðs og voru fljótir að refsa Íslendingum fyrir einbeitingarleysi.

Síðari hálfleikur var stórskemmtilegur og spilaði íslenska liðið virkilega vel.  Hallgrímur Jónasson minnkaði muninn efitr þrjár mínútur.  Sölvi Geir skallaði þá boltann fyrir markið eftir aukaspyrnu og Hallgrímur stangaði boltann í netið.  Hann var ekkert hættur í markaskorun því á 68. mínútu skoraði hann aftur með skemmtilegri hælspyrnu.  Uppskriftin af því marki var eins og af fyrra markinu, þ.e. Sölvi Geir skallaði fyrirgjöf fyrir markið og Hallgrímur afgreiddi í netið.

Heimamönnum var brugðið en þeir jöfnuðu sig og níu mínútum fyrir leikslok bættu þeir fjórða markinu við.  Fimmta markið leit dagsins ljós sex mínútum síðar en Íslendingar áttu lokaorðið þegar brotið var á Birki Bjarnasyni innan vitateigs eftir frábæran sprett.  Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr spyrnunnu sem reyndist vera síðasta spyrna leiksins.

Þetta var síðasti leikur Íslands í undankeppni EM 2012 og jafnframt síðasti leikurinn undir stjórn Ólafs Jóhannessonar, að minnsta kosti í bili.  Frammistaða Íslendinga var mjög góð í leiknum og þá sérstaklega í síðari hálfleik og geta menn gengið hnarreistir frá þessu verkefni.  Framundan er undankeppni HM 2014 en úrslitakeppnin fer fram í Brasilíu.