• mið. 21. sep. 2011
  • Landslið

Markalaust jafntefli í Laugardalnum

UEFA EM A-landsliða kvenna
uefa-weuro-2013-small

Það voru þung spor hjá íslensku stelpunum þegar þær gengu af leikvelli eftir leik þeirra gegn Belgum í undankeppni EM í kvöld.  Markalaust jafntefli varð raunin en íslenska liðið fékk fjölmörg tækifæri til þess að brjóta ísinn í þessum leik. 

Gestirnir frá Belgíu mættu til leiks með það fyrir höndum að liggja aftarlega og verja mark sitt.  Varnarleikur þeirra var þéttur og skipulagður og þær sóttu á fáum leikmönnum.  Íslenska liðið stjórnaði leiknum frá upphafi og gekk erfiðlega framan af leik að skapa sér marktækifæri.

Færin komu þó er líða tók á hálfleikinn en inn vildi boltinn ekki þrátt fyrir góð færi.  Markalaust í leikhléi og íslenska liðið stjórnaði ferðinni allan síðari hálfleikinn.  Belgíska liðið lagðist í skotgrafirnar og varðist vel.  Íslenska liðið skapaði sér þó mörg góð tækifæri en, eins og í fyrri hálfleiknum, þá vildi boltinn ekki inn.  Gestirnir nýttu hvert tækifæri undir lokin til þess að vinna tíma og þegar þýski dómarinn, Christine Baitinger, flautaði til leiksloka þá fögnuðu Belgar innilega góðu stigi.  Íslensku stelpurnar gengu hinsvegar niðurlútar af velli, sáu á eftir tveimur töpuðum stigum.

Íslenska liðið er hinsvegar enn í efsta sæti riðilsins með 7 stig eftir þrjá leiki en Belgar hafa 4 stig eftir tvo leiki..  Norðmenn lögðu Ungverja örugglega fyrr í dag með sex mörkum gegn engu og hafa 3 stig eftir tvo leiki.

Þetta var síðasti heimaleikur liðsins á þessu ári en framundan eru tveir leikir á útivelli, gegn Ungverjum 22. október og gegn Norður Írum 26. október.

Staðan