Góður sigur í fyrsta leik hjá U19 kvenna
U19 landslið kvenna hóf undankeppni EM með góðum 2-1 sigri á Slóvenum á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda. Wales vann öruggan 3-0 sigur á Kasakstan á sama tíma, og fór sá leikur fram á Fjölnisvelli. Næsta umferð er á mánudag.
Það var nokkuð jafnræði með liðum Íslands og Slóveníu í leiknum í dag, en íslenska liðið leiddi með fallegu marki Guðmundu Brynju Óladóttur á 41. mínútu. Slóvenarnir jöfnuðu metin á 64. mínútu en það var Katrín Gylfadóttir sem skoraði síðasta markið og sigurmark Íslands á 71. mínútu. Liðin skiptust á að sækja það sem eftir lifði leiks, án þess þó að ná að skora fleiri mörk.
Í hinum leik riðilsins vann Wales öruggan 3-0 sigur á ferðaþreyttu liði Kasakstan. Lið þeirra missti af tengiflugi á föstudag og kom til landsins seint í gærkvöldi eftir rúmlega sólarhrings ferðalag. Það er því rétt að taka úrslitunum með fyrirvara og ekki víst að getumunurinn á liðunum sé svona mikill.
Næsta umferð riðilsins fer fram á mánudag og þá mætast Ísland og Kasakstan á Selfossi annars vegar, en hins vegar Slóvenía og Wales í Sandgerði.