• lau. 17. sep. 2011
  • Landslið

Frábær sigur á Noregi - Óskabyrjun í undankeppni EM

Frá leik Íslands og Noregs í undankeppni EM, 17. september 2011
KSI_2011_Akv-06-119

Stórkostlegur fyrri hálfleikur íslenska kvennalandsliðsins skóp frækinn sigur Íslands á Noregi í dag.  Stelpurnar höfðu sigur, 3 – 1, eftir að hafa leitt með þremur mörkum í leikhléi.  Þetta er einn fræknasti sigur kvennalandsliðsins á heimavelli og óskabyrjun á undankeppni EM en íslenska liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína..

Íslenska liðið kom gríðarlega einbeitt til leiks og átti norska liðið, sem er í 10. sæti heimslista FIFA, engin svör.  Hólmfríður Magnúsdóttir fékk gott færi strax á 7. mínútu sem ekki nýttist en Hólmfríði brást ekki bogalistin aðeins mínútu síðar þegar hún skoraði glæsilegt mark með skoti rétt fyrir utan vítateig.  Átta mínútum síðar var brotið á Margréti Láru Viðarsdóttur innan vítateigs  og hún var öryggið uppmálað á vítapunktinum.  Staðan orðin 2 – 0 eftir 15 mínútur og kátt í Dalnum. 

Ákveðið íslenskt lið var engan veginn hætt og á 32. mínútu bætti Hólmfríður við þriðja markinu.  Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir átti þá góða fyrirgjöf fyrir markið sem Hólmfríður sneiddi skemmtilega í fjærhornið.  Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleiknum þó svo að íslensku stelpurnar hafi gert sig líklegar nokkrum sinnum og Norðmenn önduðu léttar þegar finnski dómarinn gaf merki um lok fyrri hálfleiksins.

Norska liðið kom baráttuglatt til leiks í síðari hálfleiknum og höfðu undirtökin.  Íslenska liðið varðist þó vel og gaf fá færi á sér.  Gestirnir minnkuðu þó muninn á 70. mínútu með hnitmiðuðu skoti frá vítateigslínu.  Norska liðið hélt áfram að halda boltanum og íslenska liðið náði ekki að nýta þá möguleika sem gáfust fyrir vænlegar skyndisóknir. 

Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir fékk þó besta færið þegar skalli hennar, eftir hornspyrnu, hafnaði í þverslánni og niður á marklínuna áður en varnarmenn Noregs björguðu boltanum aftur fyrir endamörk.  Stuttu síðar var flautað til leiksloka og 3.007 áhorfendur fögnuðu íslenskum sigri og íslensku liði ákaft.

Góð byrjun íslenska liðsins í undankeppninni gefur vonandi liðinu byr undir báða vængi.  Fyrirfram var búist við að baráttan um topsætið yrði á milli Íslands og Noregs í þessum riðli en ljóst að allir leikir riðilsins verða erfiðir.  Þessi sigur gerir næsta leik, gegn Belgíu á Laugardalsvelli næstkomandi miðvikudag, enn mikilvægari.  Belgar lögðu Ungverja í dag með tveimur mörkum gegn einu og hafa því 3 stig.

Leikurinn gegn Belgum hefst kl. 19:30 á Laugardalsvelli, miðvikudaginn 21. September.  Miðasala á leikinn er þegar hafinn og er hægt að kaupa miða á www.midi.is.  Miðaverð er 1.000 krónur fyrir fullorðna, 17 ára og eldri, en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.

Það er gríðarlega mikilvægt að stelpurnar fái stuðning næstkomandi miðvikudag og eru allt knattspyrnuáhugafólk hvatt til þess að mæta á völlinn og hvetja stelpurnar.