Rúnar Kristinsson heiðraður af UEFA
Fyrir leik Íslands og Kýpurs var Rúnar Kristinsson heiðraður af Knattspyrnusambandi Evrópu og fékk afhentan minnispening og húfu (cap) af því tilefni. UEFA var þarna að heiðra þá knattspyrnumenn í Evrópu sem hafa náð 100 landsleikjamarkinu. Það var Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sem heiðraði Rúnar.
Rúnar Kristinsson, sem lék alls 104 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði 3 mörk, er svo sannarlega í góðum hópi, því á meðal þeirra sem UEFA heiðrar á sama hátt eru kappar eins og Michael Laudrup, Bobby Charlton, David Beckham, Zinedine Zidane, Franz Beckenbauer, Lothar Matthaus, Fabio Cannavaro, Edwin van der Sar, Pat Jennings, Luis Figo, Gheorghe Hagi, Kenny Dalglish, Raúl González og Andriy Shevchenko, svo einhverjir séu nefndir.