• mið. 07. sep. 2011
  • Landslið

30 ár liðin frá fyrsta kvennalandsleiknum

Fyrsta kvennalandsliðið
KSI_1981_Akv-001

Þann 20. september næstkomandi eru liðin 30 ár frá fyrsta kvennalandsleik Íslands.  Af því tilefni býður KSÍ öllum A-landsliðskonum Íslands frá upphafi á landsleik Íslands og Noregs 17. september næstkomandi og leik Íslands og Belgíu 21. september.  Báðir leikirnir eru í undankeppni EM 2013, en úrslitakeppnin fer fram í Svíþjóð.  Þær landsliðskonur sem vilja þiggja miða eru beðnar um að senda tölvupóst á Klöru Bjartmarz (klara@ksi.is). 

Margt um að vera í afmælismánuðinum.  A landsliðið leikur tvo leiki, gegn Noregi og Belgíu, og einnig fer fram riðill í undankeppni EM U19 kvenna hér á landi í september.  Leikið verður í Reykjavík og nágrenni.

Þessi fyrsti landsleikur, fyrir 30 árum, var viðureign A landsliðs kvenna við Skotland.  Um var að ræða vináttulandsleik sem leikinn var í Kilmarnock og lauk honum með 3-2 sigri Skota, sem leiddu 1-0 í hálfleik. 

Hlekkur á leikskýrsluna

Fyrsta kvennalandsliðið

Umfjöllun Dagblaðsins um leikinn (21. sept 1981):

„Við erum mjög ánægð með þennan leik þó svo alltaf hefði verið gaman að halda forystunni sem við höfðum þar til 6 mínútur voru til leiksloka. Skozka liðið er mjög sterkt og stóð sig vel á móti í ítalíu nýlega. Þetta var 28. landsleikur Skota í kvennaknattspyrnu en okkar fyrsti svo árangurinn hlýtur að teljast ágætur," sagði Svanfríður Guðjónsdóttir, einn af fararstjórum íslenzka kvennalandsliðsins i knattspymu, er DB hafði samband við hana í Glasgow í gær.

Íslenzka kvennalandsliðið í knattspyrnu tapaði mjög naumlega fyrir Skotum í landsleik í Glasgow í gær. Skotar sigruðu 3—2 eftir að hafa verið 1—0 yfir í hálfleik. Bryndís Einarsdóttir jafnaði fyrir Ísland þegar 15 mín. voru liðnar af síðari hálfleik og var það því fyrsta mark sem Ísland skorar í landsleik í kvennaknattspyrnu. Rétt á eftir skoraði Ásta B. Gunnlaugsdóttir annað mark íslands og staðan því óvænt orðin 2—1, íslenzku stúlkunum í vil. Þannig var staðan þar til 6 mínútur voru til leiksloka er þeim skozku tókst að jafna. Þær skoruðu svo sigurmark leiksins mínútu síðar.

Leikurinn fór fram við mjög erfiðar aðstæður, úrhellisrigning var og völlurinn þungur. Þar við bættist að leiktími var mun lengri en venjan er hér á landi í kvennaknattspyrnu, 2 x 45 mín. í stað 2x35 mín. sem er sá leiktími sem gefinn er upp í alþjóðareglum og farið er eftir hérlendis. Árangur íslenzku stúlknanna er því mjög athyglisverður og ætti að vera íslenzkri kvennaknattspyrnu til mikillar hvatningar. Skozka liðið er væntanlegt hingað til lands næsta sumar og verður þá leikinn fyrsti landsleikur i kvennaknattspyrnu hér á landi. Íslenzku stúlkurnar eru væntanlegar heim í dag. -VS (Víðir Sigurðsson)