• mán. 29. ágú. 2011
  • Landslið

Háttvísidagar FIFA 2011

FIFA Fair Play Days 2011 - Háttvísidagar FIFA 2011
ffp_days-2011_banner_final

FIFA stendur nú fyrir sérstökum háttvísidögum í 15. sinn, en þeir voru fyrst haldnir árið 1997.  Að þessu sinni urðu dagarnir 2. til 6. september fyrir valinu, en á því tímabili eru m.a. landsleikjadagar hjá A- og U21 landsliðum karla.  Háttvísidagarnir eru haldnir hátíðlegir á ýmsan hátt víðs vegar um heiminn, allt frá grasrótarknattspyrnu og til milliríkjaleikja.

Minnt verður á háttvísidaga FIFA hér á Íslandi í tengslum við tvo landsleiki þann 6. september.  Á Kópavogsvelli leikur U21 landslið karla gegn Noregi í undankeppni EM U21 liða 2013 og á Laugardalsvelli leikur A-landslið karla gegn Kýpur í undankeppni EM 2012, sem er síðasti heimaleikur íslenska liðsins í keppninni.

Knattspyrnusamband Íslands hvetur alla - leikmenn, þjálfara, dómara, stuðningsmenn og alla aðra sem tengjast knattspyrnu með einum eða öðrum hætti – til að sýna háttvísi og virðingu, jafnt á vellinum sem utan hans.  KSÍ minnir á að hver einasti maður má aldrei missa sjónar á því að besta leiðin til að leika knattspyrnu er að sýna háttvísi, heiðarleika og virðingu.

Yngstu iðkendurnir, börnin, eru framtíð íþróttarinnar okkar.  Við verðum að sýna börnunum okkar að þau gildi sem við metum mikils í knattspyrnu – agi, virðing, samstaða, liðsheild og háttvísi eiga líka við í hinu daglega lífi í okkar samfélagi. 

10 gullnar reglur FIFA um háttvísi

  1. Leikið heiðarlega.
  2. Leikið til sigurs, en takið tapi með reisn.
  3. Hlítið knattspyrnulögunum.
  4. Sýnið mótherjum, samherjum, dómurum, forráðamönnum og stuðningsmönnum virðingu.
  5. Hafið heildarhagsmuni knattspyrnunnar í huga.
  6. Heiðrið þau sem verja gott orðspor knattspyrnunnar.
  7. Hafnið spillingu, ólöglegum lyfjum, eiturlyfjum, kynþáttahatri, ofbeldi, veðmálastarfsemi og öðrum hættum sem kunna að steðja að íþróttinni okkar.
  8. Styðjið aðra í að standast þrýsting spillingar.
  9. Afneitið þeim sem reyna að lítillækka íþróttina okkar.
  10. Notið knattspyrnu til að bæta heiminn.