• mið. 10. ágú. 2011
  • Landslið

Ungverskur sigur í Búdapest

Sportmyndir_30P7772
Sportmyndir_30P7772

A landslið karla tapaði með fjórum mörkum gegn engu í vináttuleik í Búdapest í kvöld.  Leikurinn var nokkuð fjörlegur og liðin skiptust á að sækja fyrsta hálftímann.  Hættulegasta færið áttu heimanenn þegar sóknarmaðurinn Rudolp fékk stungusendingu og komst einn á móti Stefáni Loga, sem varði afar vel.  Ungverjar náðu forystunni á 32. mín, þegar misheppnuð sending Heiðars Helgusonar hafnaði hjá Vladimir Koman, leikmanni Sampdoria á Ítalíu, sem skoraði með góðu skoti rétt utan teigs, sendi boltann neðst í markhornið.  Heimamenn efldust við markið, réðu lögum og lofum og bættu við marki áður en flautað var til leikhlés.  Hajnal lyfti þá boltanum yfir íslensku vörnina og Rudolp gerði engin mistök að þessu sinni, lék á Stefán Loga og renndi boltanum í markið.  2-0 í hálfleik.

Ungverjarnir héldu uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks og hefðu hæglega getað náð forystunni innan 5 mínútna.  Okkar strákar efldust þó smám saman og leikurinn var að komast í jafnvægi þegar Aron Einar missti boltann við upphaf íslenskrar sóknar á miðjunni.  Birkir Már í hægri bakverðinum var rokinn af stað upp kantinn og vinstri vængmaður Ungverja, Dzsudzsák, fékk boltann á auðum sjó og negldi knöttinn neðst í hornið fjær.  Áfram sóttu heimamenn og voru mun sterkari það sem eftir lifði leiks.  Fjórða og síðasta markið kom á 88. mínútu og var það að verki Elek sem hamraði knöttinn í netið úr vítateignum eftir hornspyrnu.

Næsta verkefni landsliðsin eru tveir leikir í undankeppni EM 2012 í byrjun september, fyrst gegn Norðmönnum í Osló og svo gegn Kýpverjum á Laugardalsvellinum.