• mið. 03. ágú. 2011
  • Landslið

NM U17 karla - Aftur sigur og jafntefli í dag

U17 landslið karla
ksi-u17karla

Á öðrum leikdegi á Norðurlandamóti U17 karla voru sigur og jafntefli aftur upp á teningnum á íslensku liðunum.  Ísland 1 lagði Færeyjar með þremur mörkum gegn engu og Ísland 2 gerði jafntefli við Finna, 1 - 1.

Í fyrri leik dagsins á Sauðárkróki voru Íslendingar sterkari aðilinn en Færeyingar börðust af krafti allan leikinn.  Elías Már Ómarsson kom Íslendingum yfir á 11. mínútu og Oliver Sigurjónsson bætti við öðru marki á 26. mínútu.  Í síðari hálfleik leit eitt íslenskt mark dagsins ljós, Þórður Jón Jóhannesson skoraði það og íslenskur sigur í höfn.

Ísland 1 mætir svo Englendingum í lokaumferð riðilsins á föstudaginn og fer sá leikur fram á Dalvík.  Hefst sá leikur kl. 15:00 en á undan, eða kl. 13:00, leika Noregur og Færeyjar á sama stað.  Búast má við miklum fjölda á þessum leikjum enda er Fiskidagurinn mikli að fara af stað þennan föstudag og því mikið um að vera á Dalvík. 

England og Noregur gerðu jafntefli í dag, 1 - 1.  England og Ísland eru því með fjögur stig, Noregur er með tvö stig en Færeyingar án stiga.

Ísland 2 mætti Finnum á Ólafsfirði og lauk þeim leik með jafntefli, 1 - 1.  Íslendingar komust yfir á 18. mínútu með skallamarki eftir góða sókn Íslands.  Þar var að verki Atli Fannar Jónsson.  Þannig var staðan þegar flautað var til leikhlés en íslenska liðið spilaði vel í fyrri hálfleiknum og fengu góð færi til þess að bæta við mörkum.  Eina mark síðari hálfleiksins var hinsvegar af finnskum toga en þeir jöfnuðu metin á 66. mínútu og þar við sat.  Eins og áður á þessu móti var þá gripið til vítaspyrnukeppni, eftir jafnteflisleiki, og þar höfðu Íslendingar betur, 4 - 3.

Íslendingar mæta Dönum í lokaumferðinni kl. 14:00 en Finnar og Svíar leika kl. 16:00.  Báðir leikirnir fara fram á Húsavík.  Íslendingar eru með fjögur stig og Finnar tvö.  Danir hafa svo eitt stig en Svíar ekkert en þessar þjóðir mætast kl. 18:00 í kvöld á Sauðárkróki.

A riðill

B riðill