NM U17 karla - Sigur og jafntefli í dag
Í dag hófst Norðurlandamót U17 karla en mótið fer fram að þessu sinni hér á landi og er leikið á Norðurlandi. Tvo íslensk lið eru með á mótinu að þessu sinni og léku þau bæði í dag. Ísland 2 lagði Svía að velli, 3 - 1, en Ísland 1 gerði jafntefli við Norðmenn, 2 - 2.
Það voru Svíar sem byrjuðu betur í fyrri leik Íslands í dag og skoruðu þeir strax á 1. mínútu. Gunnlaugur Hlynur Birgisson jafnaði hinsvegar metin á 7. mínútu og þannig var staðan þegar flautað var til leikhlés. Íslendingar bættu svo við tveimur mörkum í síðari hálfleik, fyrst Alexander Helgi Sigurðarson á 65. mínútu og svo Emil Ásmundsson á 79. mínútu.
Góður sigur hjá strákunum því staðreynd og leikur liðið, Ísland 2, við Finna á morgun kl. 16:00 og verður leikið á Ólafsfjarðarvelli. Á eftir þeim leik, kl. 18:00, leika Svíar og Danir. Þegar þetta er skrifað eru úrslitin úr leik Dana og Finna ekki ljós en sá leikur hefst kl. 19:00 á Akureyrarvelli.
Í síðari leiknum voru það aftur gestirnir sem byrjuðu betur því Norðmenn komust yfir með marki úr vítaspyrnu á 7. mínútu og bættu við öðru marki á 26. mínútu og leiddu því með tveimur mörkum eftir fyrri hálfleikinn. Íslendingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleiknum og eftir sjö mínútna leik minnkaði fyrirliðinn Hjörtur Hermannsson muninn. Íslensku strákarnir sóttu svo mikið að marki Norðmanna en það bar ekki ávöxt fyrr en í uppbótartíma þegar dæmd var vítaspyrna á Norðmenn. Úr henni skoraði Oliver Sigurjónsson og stuttu síðar var flautað til leiksloka.
Eftir leikinn fór svo fram vítaspyrnukeppni en sá háttur ef hafður á ef leikir ljúka með jafntefli og möguleiki er á að liðin geti orðið jöfn að stigum í loka riðlakeppni. Fór svo að Norðmenn skoruðu úr öllum sínum fimm spyrnum en Íslendingar úr fjórum.
Ísland 1 mætir svo Færeyjum á morgun og fer sá leikur fram á Sauðárkróksvelli og hefst kl. 14:00. Strax á eftir leika svo Noregur og England. England lagði Færeyjar fyrr í dag, 4 - 0.