• sun. 31. júl. 2011
  • Landslið

EM U17 kvenna - Bronsið til Þjóðverja

Allur hópurinn hjá U17 kvenna í Sviss
2011-U17-kvenna-hopur-i-Sviss

Það var þýska liðið sem tryggði sér þriðja sætið í úrslitakeppni EM U17 kvenna en leikið var um sæti í Nyon í dag.  Þjóðverjar lögðu íslensku stelpurnar með átta mörkum gegn tveimur og gerðu þær þýsku út um leikinn í fyrri hálfleiknum en þær leiddu í leikhléi, 5 - 0.

Þýska liðið, sem margir töldu sigurstranglegasta liðið í keppninni, hafði öll tök á leiknum í fyrri hálfleiknum og skoruðu fyrsta markið á 12. mínútu.  Fjögur mörk fylgdu í kjölfarið áður en dómari leiksins flautaði til leikhlés, það síðasta í uppbótartíma.

Þær íslensku bitu betur frá sér í síðari hálfleiknum en Þjóðverjar bættu sjötta markinu við úr vítaspyrnu áður en Telma Þrastardóttir kom íslenska liðinu á blað með marki á 48. mínútu.  Tvö mörk Þjóðverja komu á tveimur mínútum um miðja síðari hálfleikinn en Aldís Kara Lúðvíksdóttir átti lokaorðið í leiknum og lokastaðan því 8 - 2.

Síðar í dag leika svo Spánn og Frakkland til úrslita en þó svo að hlutirnir hafi ekki gengið upp á stelpunum í þessari úrslitakeppni þá er árangur liðsins hreint stórkostlegur í þessari keppni.  Mikilvæg reynsla hefur safnast í sarpinn hjá stelpunum sem væntanlega iða í skinninu eftir því að fá annað tækifæri í úrslitakeppni sem slíkri.