HM 2014 - Dregið í riðla á laugardaginn
Laugardaginn 30. júlí verður dregið í riðla í undankeppni fyrir HM 2014 en úrslitakeppnin fer fram í Brasilíu. Dregið verður í Ríó og hefst drátturinn kl. 18:00 að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með honum á heimasíðu FIFA, www.fifa.com.
Evrópa er með 13 sæti í úrslitakeppninni og eru þjóðirnar 53 sem keppa um þessi sæti. Þjóðunum er skipt í sex styrkleikaflokka og er Ísland í neðsta flokknum. Fimm fyrstu flokkarnir innihalda níu þjóðir en sá sjötti er með átta þjóðir. Dregið verður svo í níu riðla, átta riðlar munu verða með sex þjóðum en einn mun innihalda fimm þjóðir.
Sigurvegarar riðlanna tryggja sér sæti í úrslitakeppninni 2014 en þær átta þjóðir sem bestan árangur hafa í öðru sæti riðlanna, munu leika umspilsleiki um þau fjögur sæti sem eftir standa.
Leikir undankeppninnar munu fara fram á bilinu frá 7. september 2012 til 15. október 2013 en umspilsleikirnir verða leiknir á tímabilinu 15. - 19. nóvember 2013.