• mán. 04. júl. 2011
  • Landslið

Silfur hjá íslenska liðinu á Special Olympics

2011-Special-Olympics
2011-Special-Olympics

Ísland vann til silfurverðlauna í 7 manna fótbolta á Alþjóðaleikum Special Olympics í Aþenu í Grikklandi.  Ísland og Svartfjallaland mættust í úrslitaleik B-riðils þar sem Svartfellingar fóru með 2-1 sigur af hólmi.  Lárus Örn Sigurbjörnsson skoraði mark Íslands í leiknum með glæsilegu skoti og minnkaði muninn í 2-1 og þar við sat.

Íslenska liðið byrjaði varfærnislega og nokkuð lá á okkar mönnum á fyrstu mínútunum.  Stíflan brast að lokum og Svartfellingar skoruðu nokkrum sekúndum fyrir hálfleik og leiddu 1-0 í leikhléi.  Í síðari hálfleik var allt annað að sjá til okkar manna sem sóttu án afláts.  Ólmir í að jafna metin gleymdi íslenska vörnin sér eitt augnablik og Svartfellingar komu inn öðru marki. Skömmu síðar brunaði Lárus Örn upp völlinn og skoraði með glæsilegu skoti.  Það sem eftir lifði leiks sóttu Íslendingar stíft en höfðu ekki erindi sem erfiði og Svartfellingar höfðu því sigur, 2-1.

Íslenska liðið lék stórvel á mótinu og tekur á morgun á móti silfurverðlaununum.  Ísland lék í B-riðli eins og áður segir en riðillinn var sá næststerkasti á mótinu en á Special Olympics er leikið í forkeppni þar sem styrkleiki liðanna er metin og þeim svo skipað í styrkleikariðla.  Óhætt er að segja að Ísland hafi því verið á meðal sterkustu liðanna í 7 manna boltanum þar sem 4-5 lið voru í hverjum riðli og hátt í 1500 keppendur í knattspyrnu á mótinu.