• mið. 29. jún. 2011
  • Landslið

Frábær fótbolti og fögnuður á Special Olympics í Aþenu

Liðið fagnar með áhorfendum eftir sigur gegn Sviss.  Mynd af ifsport.is
Special-Olympics-island

Íslensku strákarnir hafa tryggt sér sæti í úrslitaleik 7 manna fótboltans í B-riðli á Alþjóðaleikum Special Olympics sem nú fara fram í Aþenu í Grikklandi.  Ísland mætti Austurríkismönnum í dag og hafði betur 4-1.  Íslenska liðið hefur því unnið alla leiki sína á mótinu til þessa.

Á morgun, fimmtudag, mætast Ísland og Svartfjallaland í riðlakeppninni en úrslitin í þeim leik skipta ekki máli upp á framhaldið.  Liðin mætast svo aftur á laugardag í hreinum úrslitaleik um gullið í B-riðli.  Leikurinn á morgun er kl. 12:00 að staðartíma eða kl. 09:00 að íslenskum tíma.

B-riðill er næststerkasti riðill mótsins en Ísland lék fjóra leiki í flokkun þar sem verið var að meta styrkleika liðsins og þeir unnust allir. 1-0 sigur gegn Hollendingum, 3-1 sigur gegn Þjóðverjum, 3-0 sigur gegn Sviss og loks 1-0 sigur gegn Lúxemborg.

Eftir að knattspyrnuliðið hafði lokið leik sínum þriðjudaginn 28. júní var fyrirhugað að strákarnir tækju lífinu með ró inni á hótelherbergi fram að kvöldmat. Það fór hins vegar ekki betur en svo að fyrirlið liðsins, Sæþór Jensson, endaði inni í sjúkraherbergi með skurð á höfði.

Þannig var að Sæþór, fyrirliði íslenska liðsins, og herbergisfélagi hans Jakob Alexander voru að horfa á stráka spila fótbolta í garðinum fyrir utan hótelherbergið þegar allt í einu kemur bolti svífandi í áttina að þeim.  Boltinn endaði í rúðunni sem mölbrotnaði og fékk Sæþór glerbrot í höfuðið.  Strákarnir fengu í kjölfarið að skipta um herbergi enda glerbrot í hverjum krók og kima, upp í rúmi o.s.frv.  Búið var um sár Sæþórs og náði hann að spila leikinn í dag með veglegar umbúðir á höfði. 

Stór hópur keppenda er frá Íslandi á þessum Special Olympics í Aþenu.  Eins og margir hafa tekið eftir hafa verið fréttir frá Aþenu um mótmæli og óróleika..  Þetta á sér allt stað í miðborg Aþenu sem er víðs fjarri þar sem íslenski hópurinn gistir og keppnisstöðum. Vel fer um íslenska hópinn sem og aðra þátttakendur.

Fleiri fréttir af hópnum og myndir má finna á heimasíðu Íþróttasambands Fatlaðra, www.ifsport.is.

Fyrirliðinn vel vafinn í leik gegn Austurríki. Mynd af ifsport.is

Liðið fagnar með áhorfendum eftir sigur gegn Sviss. Mynd af ifsport.is