Sektarsjóður U21 til stuðnings góðu málefni
Leikmenn U21 landsliðs karla upplifa það reglulega á meðan á EM í Danmörku stendur að vera sektaðir vegna ýmissa mála. Þeir sem sekta eru leikmenn sjálfir og geta brotin verið ýmisleg, eins og t.d. að mæta of seint í morgunmat, vera ekki í réttum fatnaði á æfingu, skila ekki vegabréfinu á réttum tíma, og ýmislegt fleira.
Þessi sektarsjóður er algerlega að frumkvæði leikmanna og er oft mikil stemmning í kringum hann. Stundum finnst mönnum sektirnar vera ósanngjarnar, en yfirleitt vita menn upp á sig sökina og kvarta ekki. Allir eru þó sáttir að lokum því upphæðin sem safnast mun renna til góðs málefnis.
Leikmennirnir hafa nú ákveðið að í lok móts muni sektarsjóðurinn renna til verkefnisins „Meðan fæturnir bera mig“. Upphæðin verður afhent forsvarsmönnum verkefnisins þegar þátttöku Íslands í mótinu er lokið.
Strákarnir vilja jafnframt hvetja alla sem geta til að styrkja verkefnið, hver einasta króna skiptir máli.