Frábærir fulltrúar okkar í Danmörku
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að úrslitakeppni EM U21 karla er við það að hefjast í Danmörku. Þar er Ísland á meðal átta þátttökuþjóða og er þetta í fyrsta skiptið sem íslenska liðið kemst í þessa úrslitakeppni. Eftirvæntingin er að vonum mikil hjá öllum þeim sem að liðinu koma og sú athygli og sá stuðningur sem að þjóðin sýnir þessu liði, gefur öllum byr undir báða vængi.
Það er mikill efniviður á meðal íslensks knattspyrnufólks og sá hópur sem er nú í Danmörku er sannarlega vitnisburður um það frábæra starf sem íslensk félagslið eru að inna af hendi. Þrátt fyrir ungan aldur eru margir leikmenn í U21 hópnum með mikla reynslu, hafa leikið sem atvinnumenn í mörg ár og jafnframt leikið með A landsliði Íslands. Margir þessara leikmanna fóru utan mjög undir að árum og hafa íslenskir knattspyrnuáhugamenn því verið að „kynnast“ þeim að nýju í gegnum árangur U21 landsliðsins.
Úrslitakeppnin er stærsti íþróttaviðburður sem fram hefur farið í Danmörku en keppni fer öll fram á Jótlandi. Ísland leikur leiki sína í riðlinum í Árósum og Álaborg, borgir sem margir Íslendingar þekkja vel. Áhugi landans hefur líka verið mikill og verða margir þeirra á pöllunum að hvetja strákana, stuðningur sem getur skipt gríðarlega miklu máli. Danir leggja mikla áherslu að þetta mót verði upplifun fyrir áhorfendur á ýmsan hátt. Þeir verða með sérstök torg í þeim borgum sem keppt verður, þar sem boðið verður upp á viðamikla dagskrá alla daga. Þar munu m.a. íslenskar hljómsveitir stíga á svið og hægt verður að fylgjast með leikjum keppninnar á risatjaldi á þessum torgum.
Fyrsti leikur Íslands er á morgun, laugardag, og þá verður þjóðin fyrir framan sjónvarpsskjáinn. Árangur liðsins hingað til gefur sannarlega ástæðu til bjartsýni þó svo að ljóst er að allt þarf að ganga upp til þess að ná settum markmiðum. Allar átta þjóðirnar ætla sér stóra hluti á þessu móti og það er stórkostlegt að fá að fylgjast með okkar strákum í Danmörku. Strákarnir treysta á góðan stuðning og jákvæða strauma frá þjóðinni og ég veit að hún mun ekki láta sitt eftir liggja í stuðningi við þessa frábæru fulltrúa okkar í Danmörku.
Áfram Ísland
Þórir Hákonarson
framkvæmdastjóri KSÍ