U21 karla - Straumurinn liggur til Danmerkur
Það hefur ekki farið framhjá neinum að U21 karlalandslið okkar er að taka þátt í úrslitakeppni EM í Danmörku. Fyrsti leikur Íslands er gegn Hvít Rússum á laugardaginn og hefst kl. 18:00 að staðartíma eða kl. 16:00 að íslenskum tíma. Leikið verður í Árósum.
Ríkissjónvarpið mun gera keppninni góð skil og verða allir leikir Íslands sýndir þar ásamt öðrum leikjum keppninnar.
Stuðningsmenn Íslands eru einnig að gera sig klára og má búast við góðum fjölda Íslendinga á leikjum strákanna. Danir verða með ýmsar uppákomur í kringum keppnina og verður svokallað "Fanzone" í öllum borgum þar sem leikið verður. Á morgun, föstudag, munu t.d. íslenskar hljómsveitir stíga á stokk í Árósum en dagskrá má sjá hér að neðan.
Þá verður Áfram Ísland klúbburinn einnig á staðnum og má þar kaupa ýmsan varning til þess að vera í réttu litunum þegar komið verður á völlinn.