• lau. 04. jún. 2011
  • Landslið

Danskur sigur í Laugardalnum

Sportmyndir_30P7576
Sportmyndir_30P7576

 

Íslendingar tóku á móti Dönum í kvöld í undankeppni EM og var leikið á Laugardalsvelli.  Danir höfðu sigur, 0 -2, eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.

Það voru Danir sem að byrjuðu leikinn af meiri sóknarhug og stjórnuðu leiknum framan af en þegar leið á hálfleikinn komust Íslendingar betur inn í leikinn.  Stefán Logi bjargaði virkilega vel einn á móti sóknarmanni Dana en Eiður Smári og Heiðar Helguson voru einnig nærri því að skora í fyrri hálfleiknum.  Leikurinn var því án marka þegar tyrkneski dómarinn flautaði til leikhlés.

Íslendingar byrjuðu síðari hálfleikinn ágætlega en það voru hinsvegar Danir sem að fundu netmöskvana eftir klukkutíma leik með skoti utan vítateigslínu.  Íslenska liðið færði sig þá framar á völlinn og höfðu undirtökin í leiknum en aftur voru það Danir sem skoruðu, nú á 75. mínútu með góðu skoti.  Eftir það var róðurinn þungur og Danir fögnuðu sigri á Íslendingum í átjánda skiptið.

Íslendingar eru með eitt stig eftir fimm leiki í riðlinum en Danir hafa tíu stig og eru í baráttunni um sæti í úrslitakeppni EM.  Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn Norðmönnum í Osló, 2. september.