Fylgdust með starfi fjölmiðla á landsleik
EKRON er sértæk einstaklingsmiðuð atvinnutengd starfsþjálfun og endurhæfing fyrir einstaklinga með skerta vinnufærni sökum afleiðinga af áfengis- og vímuefnasýki. Markmiðið er að aðstoða fólk við að byggja sig upp fyrir framtíðina þannig að það geti tekið virkan þátt í þjóðfélaginu á ný. Þjónustan er fyrir 18 ára og eldri sem hafa ekki gott aðgengi að vinnu.
Í umræðu hjá EKRON í vor kom upp að margir hefðu áhuga á að kynna sér starf íþróttafréttamanns og einnig ljósmyndara. KSÍ gaf leyfi fyrir því að nokkrir sem eru í EKRON úrræðinu gætu komið á leik Íslands og Búlgaríu, sem var fyrsti leikur kvennalandsliðsins fyrir undankeppni EM 2013. Markmiðið var að kynna fyrir fólkinu hvernig vinna fjölmiðla á slíkum leik fer fram.
Heimsóknin gekk mjög vel og kynningin bæði fróðleg og gagnleg, að sögn þeirra sem tóku þátt frá EKRON, og afar skemmtilegt – ekki síst þar sem Ísland vann stórsigur. Þátttakendum fannst áhugavert að geta séð hvað fer fram bak við tjöldin – hvort sem var í blaðamannastúkunum, viðtölum, myndatökum og ekki síst að sjá hvernig umgjörðin og vinnuaðstæður fulltrúa fjölmiðla eru á landsleik í knattspyrnu.
Nokkrar myndir sem EKRON-liðar tóku á leiknum eru hér að neðan.