Tækniskóli KSÍ - Fyrstu diskarnir afhentir
Tækniskóli KSÍ er DVD diskur sem KSÍ gefur út í 20.000 eintökum og er færður öllum börnum og unglingum að gjöf sem æfa knattspyrnu og eru 16 ára og yngri. Markmiðið með disknum er að efla knatttækni hjá börnum og unglingum, hvetja þau til aukaæfinga, jákvæðrar hreyfingar og vekja athygli á heilbrigðum fyrirmyndum í A-landsliði karla og kvenna og í U-21 árs landsliði karla. Leikmenn úr landsliðunum og landsliðsþjálfarar heimsækja öll félög landsins og afhenda iðkendum diskinn beint í hendur þeirra milliliðalaust.
Tækniskóli KSÍ verður afhentur 19 - 31. maí til 94 aðildarfélaga KSÍ, til um 17.000 leikmanna og þjálfara þeirra um allt landið á þeim tíma sem hentar hverju félagi best.
Flinkir fótboltakrökkar úr mörgum félögum sýna æfingarnar á disknum. Þar meðal eru þau Jónatan Ingi Jónsson, leikmaður FH og Kristín Þóra Birgisdóttir, leikmaður Aftureldingar. Aron Einar Gunnarsson og Sara Björk Gunnarsdóttir leikmenn A-landsliðanna afhentu þeim fyrstu eintökin af Tækniskóla KSÍ
Leikmenn A-landsliðs karla og kvenna og flinkir fótboltakrakkar sýna yfir 100 tækniæfingar á disknum. Æfingarnar eru settar upp á einfaldan hátt svo leikmenn þurfa lítið annað en bolta og vin sinn eða vinkonu til að æfa sig í knatttækninni.
Á disknum eru viðtöl við landsliðsfólk sem gefa leikmönnunum góð ráð:
· Arnór Smárason
· Aron Einar Gunnarsson
· Dóra María Lárusdóttir
· Grétar Rafn Steinsson
· Gylfi Þór Sigurðsson
· Hólmfríður Magnúsdóttir
· Margrét Lára Viðarsdóttir
· Rúrik Gíslason
· Sara Björk Gunnarsdóttir
Æfingaflokkar:
· Halda bolta á lofti
· Gabbhreyfingar
· Klára færi og skot
· Knattrak
· Móttaka
· Sendingar og spyrnutækni
· Skalli
· Boltatrix