• þri. 26. apr. 2011
  • Pistlar

Knattspyrnumót Íslands í 100 ár

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Saga Knattspyrnumóts Íslands eða Íslandsmótsins er samofin sögu þjóðarinnar. Íslandsmótið hefur frá fyrsta degi verið hluti af mannlífinu og varla er það samfélag eða sú byggð á landinu að þar hafi ekki verið háðir kappleikir undir merkjum þess.

Aðstæður til knattspyrnu voru frumstæðar í lok 19. aldar og byrjun 20. aldar og fjármagn af skornum skammti. Engu að síður var Íþróttavöllur Reykjavíkur gerður á Melunum, fyrstu knattspyrnufélögin urðu til um kaup á boltum og knattspyrnulögin voru gefin út. Keyptur var bikar og Íslandsmótið gat farið fram í fyrsta sinn árið 1912. Allar götur síðan hefur Íslandsmótið í knattspyrnu verið helsti íþróttaviðburður landsins, fyrst í Reykjavík en síðan um land allt.

Í tímans rás hefur Íslandsmótið vaxið úr nokkrum leikjum í fleiri þúsund leiki á ári hverju. Fyrst voru það nokkur lið, skipuð ungum karlmönnum, sem tóku þátt en síðar hófst keppni í yngri flokkum og kvennaflokkum. Almenningur sýndi leiknum strax mikinn áhuga og fjölmennti á völlinn og er svo enn í dag.

Það er stór áfangi að fagna 100. Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 2011. Skipulögð keppni í 100 ár sýnir vel vinsældir knattspyrnuleiksins og þann trausta grunn sem hann byggir á. Margir hafa komið við sögu og gert garðinn frægan með þátttöku sinni en aðrir hafa unnið afrek utan vallar við stjórnun og rekstur knattspyrnuliða.

Íslandsmótið hefur laðað að sér æsku landsins til þátttöku í knattspyrnu, íþróttinni sem nýtur meiri vinsælda en nokkur önnur íþrótt um heim allan. Kynslóð eftir kynslóð hefur alist upp við að sparka bolta úti í garði, á opnum svæðum eða hvar sem því má við koma. Gleðin og ánægjan, hreyfingin og útrásin eru smitandi og leikurinn tekur yfir stað og stund. Góð íþrótt er gulli betri og félagsskapurinn er ómetanlegur.

Það er mér sönn ánægja að bjóða alla velkomna til leiks þegar við fögnum byrjun 100. Íslandsmótsins. Saga Íslandsmótsins sýnir vel þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað sl. 100 ár í umgjörð skipulagðrar keppni í knattspyrnu. Þar má margt telja til, en eitt er það sem hefur ævinlega verið til staðar. Það er gleðin sem því fylgir að taka þátt í skemmtilegum leik – og svo mun verða um ókomna tíð.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.