• þri. 12. apr. 2011
  • Landslið

U17 kvenna - Úrslitakeppnin fer fram við höfuðstöðvar UEFA í Nyon

Varamannabekkurinn gegn Englandi
U17-kvenna-bekkurinn-gegn-Englandi

Ljóst er að stelpurnar í U17 munu leika gegn Spánverjum í undanúrslitum EM, 28. júlí næstkomandi.  Þær spænsku hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitunum, líkt og Íslendingar, þegar ein umferð er eftir af milliriðli þeirra.  Spánn er núverandi handhafi Evrópumeistaratitilsins.

Úrslitakeppnin sjálf fer fram í Nyon í Sviss, nánar tiltekið á Colovray vellinum sem er staðsettur við höfuðstöðvar UEFA.  Aðeins fjórar þjóðir leika í úrslitakeppninni og mætast, eins og áður sagði, Ísland og Spánn, í öðrum undanúrslitaleiknum en í hinum mætast Frakkar og sigurvegarar úr riðli 3 þar sem leika: Þýskaland, Finnland, Rússland og gestgjafarnir í Danmörku. 

Þetta er í fjórða skiptið sem úrslitakeppni er haldin í þessum aldursflokki og hafa Þjóðverjar farið tvisvar með sigur af hólmi en Spánverjar höfðu sigur á síðasta ári.

Annað hvort ár gefur þessi úrslitakeppni EM einnig þrjú sæti á HM U17 kvenna en það á ekki við um úrslitakeppnina í ár.  Á síðasta ári voru það Spánn, Írland og Þýskaland sem tryggðu sér sæti á HM 2010 sem haldin var á Trinidad og Tobago.  HM 2012 verður hinsvegar haldin í Aserbaídsjan.  Efstu þrjár þjóðirnar úr úrslitakeppni EM U17 kvenna á næsta ári, 2012, munu því tryggja sér sæti þar.

Það verður spennandi að fylgjast með stelpunum, dagana 28. - 31. júlí, í baráttunni um Evrópumeistaratitilinn.