U21 karla - Hjörtur Logi inn í hópinn
Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari U21 karla, hefur bætt Hirti Loga Valgarðssyni inn í hópinn fyrir vináttulandsleikinn gegn Englandi á mánudaginn. Hinsvegar munu þeir Jósef Kristinn Jósefsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson og Guðmundur Reynir Gunnarsson ekki vera með gegn Englendingum vegna meiðsla.
Möguleiki er á því að nokkrir leikmenn sem eru nú með A landsliðinu á Kýpur en eru gjaldgengir í U21 liðið, muni bætast í hópinn fyrir leikinn gegn Englandi. Það mun þá koma í ljós eftir leik Kýpurs og Íslands í undankeppni EM á morgun.