• fim. 24. mar. 2011
  • Landslið

U21 karla - Sigur hjá heimamönnum í fimm marka leik

Byrjunarlið Íslands U21 gegn Þýskalandi í Kaplakrika 2010
Isl-Thys_U21_2010_008

Strákarnir í U21 biðu lægri hlut gegn Úkraínu í vináttulandsleik sem fram fór í kvöld í Kænugarði.  Lokatölur urðu 3 - 2 fyrir heimamenn eftir að þeir höfðu leitt í leikhléi, 1 - 0. 

Eins og búast mátti kannski við voru það heimamenn sem réðu ferðinni í fyrri hálfleiknum og voru meira með boltann.  Íslenska liðið varðist skynsamlega og beitti skyndisóknum en náði ekki að skapa sér opin færi í fyrri hálfleiknum.  Heimamenn komust yfir á 28. mínútu og má segja að þar hafi fyrsta færi leiksins litið dagsins ljós.  Þannig var staðan í leikhléi en heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og þegar 10 mínútur voru liðnar af hálfleiknum höfðu þeir komist í 3 - 0. 

Íslenska liðið lagði þó ekki árar í bát og og á 71. mínútu var dæmd vítaspyrna eftir að Eiður Aron Sigurbjörnsson var rifinn niður í teignum eftir hornspyrnu.  Aron Jóhannsson skoraði af öryggi úr vítinu í sínum fyrsta landsleik.  Aðeins þremur mínútum síðar bætti Björn Bergmann Sigurðarson við marki og leikurinn galopinn.  Þrátt fyrir ágætar tilraunir náðu strákarnir ekki að jafna metin og heimamenn fögnðuðu sigri.

Virkilega góður lokakafli hjá íslenska liðinu og vonandi lofar hann góðu fyrir næsta vináttulandsleik sem er gegn Englendingum í Preston, næstkomandi mánudag.  Englendingar léku vináttulandsleik gegn Dönum í Viborg í kvöld og höfðu þar 4 - 0 sigur.