• fös. 04. mar. 2011
  • Landslið

Frábær íslenskur sigur gegn Kínverjum á Algarve

Byrjunarlið Íslands gegn Svíum á Algarve Cup 2011.
Byrjunarlidid-gegn-Sviumi

Íslensku stelpurnar lögðu þær kínversku í dag í öðrum leik liðsins á Algarve Cup og urðu lokatölur þær sömu og gegn Svíum. 2 -1.

Líkt og á móti Svíum þá lentu íslensku stelpurnar undir í þessum leik.  Mark Kínverja kom á 21. mínútu þar sem sóknarmaður þeirra var á auðum sjó eftir fyrirgjöf og sendi boltann framhjá Guðbjörgu Gunnarsdóttur í markinu.  En það tók íslenska liðið aðeins fimm mínútur að jafna og var Margrét Lára Viðarsdóttir þar að verki með mark beint úr aukaspyrnu.  Staðan því jöfn þegar úkraínski dómarinn gaf liðunum merki að komið væri leikhlé.

Seinni hálfleikur byrjaði með miklu fjöri, Fanndís Friðriksdóttir bjargaði á marklínu íslenska marksins eftir aukaspyrnu Kínverja eftir aðeins þrjár mínútur.  Mínútu síðar tók Margrét Lára skemmtilega við boltanum á miðlínunni, lék upp allan vallarhelming Kínverja, lék í leiðinni á þrjá varnarmenn og lagði boltann í netið, 2 - 1.  Íslenska liðið var sterkari aðilinn stærsta hluta leiksins og t.a.m. fékk Rakel Hönnudóttir dauðafæri á 57. mínútu en sendi boltann naumlega framhjá.  Stelpurnar bökkuðu hinsegar heldur of mikið á lokakaflanum og þær kínversku sóttu mikið síðustu mínúturnar.  Á 90. mínútu vildu Kínverjar fá dæmda vítaspyrnu þegar boltinn virtist smella í hönd Sifjar Atladóttur innan vítateigs en dómarinn, vel staðsettur, lét leikinn halda áfram.  Í uppbótartíma skall hurð svo sannarlega nærri hælum þegar þær kínversku áttu þrumuskot sem hafnaði í slánni og þaðan í stöngina.  En inn fór boltinn ekki og stuttu síðar fögnuðu stelpurnar okkar sætum sigri.

Frábær sigur hjá íslenska liðinu í erfiðum leik.  Íslenska liðið var heldur sterkari aðilinn í leiknum en þær kínversku gáfu ekkert eftir og sóttu mjög á lokakaflanum.  Ísland trónir því á toppi B riðils með sex stig en Svíar og Danir hafa þrjú og Kínverjar eru án stiga.  Svíar unnu Dani með þremur mörkum gegn einu í hinum leik riðilsins í dag.  Það er því ljóst að eitt stig gegn Dönum dugar íslenska liðinu til að leika til úrslita á Alagarve.  En það verður svo sannarlega erfiður leikur sem fer fram á mánudaginn og hefst kl. 15:00.

ÁFRAM ÍSLAND!

Leikskýrsla