• mið. 02. mar. 2011
  • Landslið

Óskabyrjun Íslendinga á Algarve

Byrjunarlið Íslands gegn Svíum á Algarve Cup 2011.
Byrjunarlidid-gegn-Sviumi

Íslendingar fengu sannkallaða óskabyrjun á Algarve Cup þetta árið en stelpurnar unnu frábæran sigur á Svíum í fyrsta leik sínum á mótinu.  Lokatölur urðu 2 - 1 fyrir Íslendinga eftir að jafnt hafði verið í leikhléi, 1 - 1.  Það voru Margrét Lára Viðarsdóttir og fyrirliðinn, Katrín Jónsdóttir, sem skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Þó svo að tala megi um sannkallaða óskabyrjun Íslands á mótinu þá voru það Svíar sem gátu vart hugsað sér betri byrjun á leiknum því boltinn lá í neti Íslendinga eftir aðeins tveggja mínútna leik.  Stelpurnar lögðu þó ekki árar í bát, þess heldur hertu þær róðurinn og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum.  Það bar árangur á 38. mínútu þegar Margrét Lára Viðarsdóttir komst á auðan sjó eftir sendingu frá Eddu Garðarsdóttur.  Margrét Lára kláraði færið virkilega vel og skoraði þar sitt 56. mark í 69 landsleikjum.

Staðan því jöfn þegar japanski dómarinn flautaði til loka fyrri hálfleiks.  Svíar komu ákveðnari áq miðin í síðari hálfleiknum en íslenska liðið gaf ekki færi á sér, varðist skynsamlega og hélt sjó.  Það var svo á 54. mínútu að Edda tók aukaspyrnu og spyrnti inn í vítateig Svía.  Margrét Lára skallaði boltann áfram þar sem hann barst fyrir fætur Katrínar Jónsdóttur, í sínum 103. landsleiks, sem afgreiddi hann í netið.

Jafnræði var með liðunum næstu mínútur en sænska liðið sótti stíft síðustu 20 mínúturnar án þess þó að skapa sér nein dauðafæri.  Stelpurnar okkar vörðust skynsamlega og var það ekki fyrr en í uppbótartíma sem Þóra Helgadóttir þurfti virkilega að sýna sparihliðarnar á milli stanganna.  Hún varði þá skalla frá Svíum á ævintýralegan hátt alveg úti við stöng.  Stuttu síðar var flautað til leiksloka og sætur sigur stelpnanna á Svíum staðreynd.

Sannkölluð óskabyrjun á liði sem er í fjórða sæti styrkleikalista FIFA og lagði íslenska liðið fyrir ári síðan á sama móti, 5 - 1.  Sigurinn er ekki síst sætur fyrir þær sakir að þetta er fyrsti sigurinn sem vinnst á Svíum hjá A landsliði kvenna og tókst það í 10. tilraun.

Næsti leikur er gegn Kína á föstudaginn og lokaleikur riðilsins er gegn Dönum á mánudaginn.  Þessar þjóðir mættust einmitt í dag og höfðu Danir sigur, 1 - 0 og kom eina mark leiksins eftir aðeins 30 sekúndur.

Leikskýrslan