• fim. 24. feb. 2011
  • Landslið

KSÍ gerir samning við Prozone

Heiðar Helguson skallar og skorar (Sportmyndir)
portugal2010-Sportmyndir_30P4295

Knattspyrnusamband Íslands hefur gert samning við Prozone um leikgreiningu á landsleikjum Íslands næstu 2 árin.

Samningurinn felur í sér að Prozone leikgreinir 60 leiki á ári , næstu tvö árin,  sem KSÍ óskar eftir að séu leikgreindir.   KSÍ mun nýta þessa leiki til leikgreiningar á leikjum landsliða Íslands en landsliðsþjálfarar hafa líka möguleika á að láta leikgreina leiki væntanlegra mótherja okkar til að hjálpa til við að undirbúa landslið okkar sem best. 

Samningurinn felur í sér að hver leikur er greindur niður í um 2.500 atriði og skilað tilbaka til KSÍ innan sólarhrings eftir að leikurinn hefur verið sendur til Prozone.  Hver einasta snerting hvers leikmanns í leiknum er greind niður og flokkuð og hægt verður að fá nákvæmt yfirlit yfir framlag hvers leikmanns sem tók þátt í leiknum. 
 
Leikgreiningin er frábært stuðningstól fyrir landsliðsþjálfarana og er í raun bylting hvað varðar möguleika til leikgreiningar á landsliðum Íslands og mótherjum.
 
Prozone er leiðandi fyrirtæki í heiminum á sviði leikgreiningar í knattspyrnu.  Meira og minna allir stærstu klúbbar og knattspyrnusambönd í heiminum nota Prozone.  Með þessum samningi er KSÍ að stíga mikilvægt skref í að bæta umgjörð og undirbúning landsliða okkar til að hjálpa þeim að ná áfram góðum árangri á alþjóðavettvangi.  Fyrstu landsleikirnir sem verða leikgreindir verða landsleikir A-landsliðs kvenna á Algarve Cup mótinu í byrjun mars.