Ályktun um Íþróttaslysasjóð samþykkt á ársþingi
Á 65. ársþingi KSÍ sem fram fór um helgina var samþykkt ályktun um Íþróttaslysasjóð og þessi ályktun send ríkisstjórn Íslands sem og ráðherra velferðarmála. Í þessari ályktun mótmælir ársþing KSÍ harðlega lækkun framlags velferðarráðuneytis í sjóðinn.
Ályktunina og greinargerð með henni má sjá hér að neðan.
Ályktun um Íþróttaslysasjóð
Ályktun
Ársþing KSÍ mótmælir því harðlega að fjárframlög til Íþróttaslysasjóðs séu skert í stað þess að þau séu aukin í samræmi við fjölgun umsókna og íþróttafólk sé ekki tryggt í samræmi við áður samþykkta reglugerð um slysatryggingar íþróttafólks ef slys ber að höndum.
Greinargerð:
Í lögum um almannatryggingar er skýrt að íþróttafólki skulu tryggðar slysatryggingar en í erindi frá ÍSÍ frá haustdögum 2010 er tilkynnt að afgreiðslu umsókna í Íþróttaslysasjóð vegna slysa á árinu 2010 sé frestað um óákveðinn tíma. Ástæða þessa er lækkun framlags velferðarráðuneytis í sjóðinn auk þess sem fjöldi umsókna hefur aukist og ekki er fjármagn í sjóðnum til þess að hann standi undir hlutverki sínu.
Er það von aðildarfélaga KSÍ að ráðherra velferðarmála tryggi frekari framlög til sjóðsins svo reka megi lögbundinn sjóð í samræmi við yfirlýst hlutverk hans. Það er með öllu óviðunandi að íþróttafólk og íþróttafélög séu í mikilli óvissu um framtíð sjóðsins og að enn frekar séu framlög til íþróttahreyfingarinnar skorin niður. Með þeirri ákvörðun að fresta afgreiðslu umsókna vegna slysa sem eiga sér stað á árinu 2010 og 2011 er verulegum kostnaði varpað yfir á iðkendur íþrótta og þau aðildarfélög sem byggja íþróttahreyfinguna í landinu og ljóst að undir þeim kostnaðarauka geta þessir aðilar ekki staðið.
Stjórn KSÍ