• fös. 28. jan. 2011
  • Fræðsla

Súpufundur KSÍ verður haldinn í hádeginu fimmtudaginn 3. febrúar

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Næsti súpufundur KSÍ verður haldinn fimmtudaginn 3. febrúar. Að þessu sinni mun Valgeir Skagfjörð frá Regnbogabörnum halda erindi um einelti og knattspyrnu.

Eitt er víst að aldrei er of mikið fjallað um einelti og að einelti getur átt sér stað hvar og hvenær sem er. Ekki síður á æfingasvæðum íþróttafélaga eins og í skólum landsins. Því hvetjum við alla sem koma á einhvern hátt að starfi barna og unglinga innan félaga í knattspyrnu að líta við og hlýða á Valgeir.

Líkt og áður hefur verið á þessum fundum verður fyrirkomulagið 30-40 mínútna fyrirlestur og svör við spurningum. Jafnframt mun KSÍ bjóða gestum upp á súpu og brauð á þessum fyrirlestri og því upplagt að skella sér í heimsókn til KSÍ, hlýða á áhugavert erindi og fá sér hádegismat í leiðinni.

Þessi sjötti fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 3. febrúar klukkan 12:15 á 3. hæð í höfuðstöðvum KSÍ við Laugardalsvöll. 

Aðgangur er ókeypis og opinn öllum áhugasömum en þó þarf að skrá sig með því að senda tölvupóst á dagur@ksi.is og taka fram nafn, kennitölu og netfang.