Lettar luku keppni með fullt hús stiga
Lettar luku keppni í riðlinum í forkeppni EM í Futsal sem fram fer að Ásvöllum með fullt hús stiga, unnu Armena í lokaleiknum og þar með alla leikina þrjá. Fyrirliðinn Andrejs Aleksejevs, sterkasti leikmaður Letta, var hvíldur í lokaleiknum, enda efsta sætið öruggt. Armenar létu lettneska liðið svo sannarlega hafa fyrir sigrinum í dag og börðust af miklum krafti allan leikinn. Allt leit út fyrir að markalaust yrði í fyrri hálfleik þó bæði lið hafi átt nokkur úrvals tækifæri, en Lettar skoruðu eina markið úr skyndisókn þegar innan við ein mínúta var eftir.
Armenarnir héldu baráttunni áfram í seinni hálfleik, létu vel finna fyrir sér og uppskáru fljótlega jöfnunarmark. Lettar fengu nokkur upplögð marktækifæri í kjölfarið og þá sérstaklega Aleksandrs Zukovs, en Harutyun Harutyunyan í armenska markinu var í miklu stuði og varði fjölmörg skot sem hittu rammann, auk þess sem lettnesku leikmennirnir settu boltann í marksúlurnar í nokkur skipti. Forystan var loks Letta þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum, þegar þeir skoruðu eftir fast leikatriði eftir að aukaspyrna hafði verið dæmd rétt utan teigs Armena. Meira var ekki skorað og 2-1 sigur lettneska liðsins staðreynd. Armenar luku því keppni í riðlinum með eitt stig.
Ljóst var fyrir leikinn að Lettar væru komnir áfram og munu þeir leika í undankeppninni í febrúar, þar sem þeir eru í riðli með Ítölum, Slóvenum og Bosníumönnum.