• lau. 22. jan. 2011
  • Landslið

Stórsigur Íslands á Armeníu

Futsal - Magnýs Sverrir skorar beint úr aukaspyrnu
Futsal_day2_04

Futsal-landslið Íslands vann í dag, laugardag, 6-1 stórsigur á Armenum í forkeppni EM, í riðli sem fram fer að Ásvöllum í Hafnarfirði.  Það var gott skipulag og öflugur sóknarleikur sem skóp þennan glæsilega sigur og tryggði Íslandi sín fyrstu stig í keppni Futsal-landsliða.

Það varð ljóst snemma leiks að íslenska liðið ætlaði að selja sig dýrt og Armenarnir voru pressaðir hátt á vellinum.  Það virtist henta gestunum vel, því þannig stilltu þeir einmitt upp á móti Grikkjum í fyrstu umferð.  Fyrstu færi leiksins og þau hættulegustu framan af voru Armena, sem áttu tvö algjör dauðafæri áður en þeir skoruðu fyrsta mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik.  En Ísland var ekki lengi að jafna og þar var að verki Þorsteinn Már Ragnarsson eftir góðan samleik við fyrirliðann Tryggva Guðmundsson.  Guðmundur Steinarsson skoraði síðan úr vítaspyrnu og meira var ekki skorað í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað en eftir að Þorsteinn Már skoraði sitt annað mark í leiknum, aftur eftir flott þríhyrningsspil við Tryggva, var um algjöra einstefnu að ræða.  Haraldur Freyr Guðmundsson, Tryggvi og Magnús Sverrir Þorsteinsson bættu við mörkum á síðustu 5 mínútunum og glæsilegur 6-1 sigur var í höfn.

Lokaumferð riðilsins fer fram á mánudag, en nú þegar er lljóst að það verða Lettar sem vinna riðilinn og fara áfram í undankeppnina, þar sem þeir mæta Ítölum, Slóvenum og Bosníumönnum.

Ísland leikur síðari leik mánudagsins og hefst hann kl. 19:00.  Mótherjarnir eru Grikkir sem vilja eflaust ólmir bæta upp slaka frammistöðu í sínum fyrstu tveimur leikjum.

Tengill á leikskýrsluna á uefa.com

Tengill á mótið á ksi.is