• mið. 22. des. 2010
  • Pistlar

Viðburðarríku knattspyrnuári að ljúka

Geir Þorsteinsson
geir-thorsteinsson-2011-minni

 

Viðburðaríku ári er nú að ljúka og við tekur nýtt knattspyrnuár með von um góðan árangur á mörgum vígstöðum. 

Frammistaða yngri landsliða okkar gefur góð fyrirheit um framtíðina og sjaldan hafa okkar lið náð eins góðum árangri á alþjóðavettvangi.  U17 ára lið karla og kvenna komust áfram í milliriðla fyrir EM 2011 sem og U19 ára lið kvenna.  Þessi landslið eiga því möguleika á að leika í lokakeppni EM á næsta ári sem er einstakur árangur og sýnir vel að félögin í landinu, þjálfarar og aðrir sem að koma, eru á réttri leið í uppbyggingarstarfi sínu og framtíðin er björt. 

Árangur U21 liðs karla hefur vakið verðskuldaða athygli og ljóst að við eigum marga góða leikmenn í þessum aldursflokki.  Þegar hafa margir þessara leikmanna skilað sér upp í A-landsliðið og má segja að ákveðin kynslóðaskipti séu að eiga sér stað þar. U21 liðið tryggði sér 2. sæti síns riðils, m.a. með því að leggja Þjóðverja 4-1 á Kaplakrikavelli, og tók svo skrefið alla leið í úrslitakeppnina, sem fram fer í Danmörku í júní 2011, með því að vinna Skota tvisvar í umspili. Þessir ungu og spræku strákar hafa svo sannarlega stolið hinni íslensku knattspyrnusenu og fangað huga knattspyrnuáhugafólks landsins.  Það verður hverjum áhugamanni um knattspyrnu á Íslandi mikilvægt að fylgjast með þessum piltum í Danmörku á næsta ári og auðvitað um ókomna tíð.

Nýtt nafn var ritað á Íslandsmeistarabikar karla. Ungt og efnilegt lið Breiðabliks varð sigurvegari eftir spennandi lokaumferðir í Pepsi-deildinni. Liðið gaf tóninn með skemmtilegri knattspyrnu. Það var skipað fjölmörgum ungum og efnilegum leikmönnum, sem höfðu hraða og góða boltatækni. Ný kynslóð íslenskra leikmanna er að koma fram á sjónarsviðið. Eldgosið í Eyjafjallajökli setti svip sinn á niðurröðun mótsins og þurfti að víxla mörgum heimaleikjum ÍBV framan af, enda gátu þeir ekki leikið á Hásteinsvelli sökum öskufalls. FH vann KR örugglega í úrslitaleik VISA-bikarsins en leikurinn fór nú aftur fram í ágústmánuði.

Valur hélt áfram einokun sinni á Íslandsmeistaratitlinum með því að sigra í Pepsi-deild kvenna - fimmti sigurinn í röð.  Þó verður að segjast að sennilega hafa aldrei áður jafn mörg lið keppt af svo mikilli hörku í efri hluta deildarinnar. En Valur var sem fyrr með besta liðið, frábæra leikmenn í öllum stöðum, og vann tvöfalt í ár - VISA-bikarinn var þeirra eftir sigur á Stjörnunni í úrslitaleik.

Næsta sumar verður merkilegt í íslenskri knattspyrnusögu, ekki eingöngu vegna þess að U21 landslið karla mun leika í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn, heldur vegna þess að þá mun 100. Íslandsmótið fara fram.  Fyrsta Íslandsmótið fór fram árið 1912 og voru þátttökuliðin þrjú – Framarar, KR-ingar og Eyjamenn, sem lögðust í tveggja daga ævintýralegt ferðalag til að komast til leiks.  KSÍ mun legga sitt af mörkum til að gera 100. Íslandsmótið eins glæsilegt og kostur er.

Við lok árs er rétt er að minnast liðinna daga, draga af þeim lærdóm, og hugsa um leið til framtíðar.  Fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands óska ég landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og velfarnaðar á nýju ári. 

Megi árið 2011 verða gott knattspyrnuár.

Áfram Ísland

 

Geir Þorsteinsson

formaður KSÍ