Boltar og bækur í Jólaaðstoðina
Á dögunum færði Knattspyrnusamband Íslands Jólaaðstoðinni bolta og bækur sem ætlaðar eru í góða jólapakka um þessi jól. Fótboltarnir voru af tveimur stærðum og bækurnar, Bikardraumar saga bikarkeppninnar á Íslandi, voru 50 talsins. Vel var tekið á móti framlaginu af starfsmönnum Jólaaðstoðarinnar enda margir sem leita þangað fyrir hátíðirnar.
Jólaaðstoðin er samstarfsverkefni Mæðrastyrksnefndar, Rauða Krossins í Reykjavík, Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins. Úthlutun Jólaaðstoðarinnar fer fram í Skútuvogi 3 í Reykjavík en einnig eru afgreiðslur á Akranesi, Akureyri, í Grindavík og Keflavík.