Vinnufundur með leyfisfulltrúum um leyfisferlið 2011
Leyfisfulltrúar þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið fyrir keppnistímabilið 2011 mættu til fundar í höfuðstöðvum KSÍ á miðvikudag. Um er að ræða árlegan vinnufund og alls mættu 26 fulltrúar frá 21 félagi af þeim 24 (auk Njarðvíkur í 2. deild) sem undirgangast kerfið að þessu sinni. Lúðvík Georgsson, formaður leyfisráðs, fór ítarlega yfir helstu breytingar á leyfisreglugerðinni milli ára. Ómar Smárason, leyfisstjóri, fór í gegnum leyfisferlið og gátlistann sem félögin og leyfisstjórn nota til að halda utan um leyfisumsóknir. Hagnýt atriði tengd gátlistanum og leyfisferlinu í heild voru rædd og bent á leiðir til að uppfylla ákveðnar forsendur.