• mið. 01. des. 2010
  • Leyfiskerfi

Njarðvík undirgengst leyfiskerfið 2011

Njarðvík
njardvik2007litid

Njarðvík hefur óskað eftir því við leyfisstjórn að félagið gangist undir leyfisferlið fyrir keppnistímabilið 2011 með öllu sem því fylgir.  Njarðvíkingar leika í 2. deild, en í þeirri deild er ekki keyrt leyfiskerfi og er þessi ósk merki um mikinn metnað félagsins.

Njarðvík undirgekkst leyfiskerfið fyrst árið 2007, þegar liðið komst upp í 1. deild.  Þrátt fyrir fall í 2. deild keppnistímabilið 2008, óskaði Njarðvík eftir því að undirgangast leyfiskerfið 2009.  Aftur fór Njarðvík upp í 1. deild það sumar, en féll svo í 2. deild keppnistímabilið 2010.  Njarðvíkingar hafa því sýnt mikinn metnað með því að halda sér inni í leyfiskerfinu, ef svo má að orði komast, þrátt fyrir að leika í deild sem ekki fellur undir leyfiskerfi KSÍ.  Ekki mun þó koma til þess að leyfisgögn Njarðvíkur verði lögð fyrir leyfisráð til ákvarðanatöku, en leyfisstjórn mun meta gögnin og kynna hver líkleg niðurstaða hefði orðið.

Leyfiskerfið setur strangan, en öflugan ramma utan um rekstur knattspyrnufélaga og hafa Njarðvíkingar fundið að kerfið hefur hjálpað þeim í sínu starfi.  Leyfisstjórn fagnar þessu og mun taka vel í beiðnir annarra félaga til að undirgangast leyfiskerfið, þó þau leiki ekki deild sem fellur þar undir.