Grindavík og Valur hafa skilað leyfisgögnum
Félögin sem undirgangast leyfiskerfið virðast ætla að halda uppteknum hætti frá síðasta ári hvað varðar skil á leyfisgögnum, og skila snemma. Leyfisferlið hófst síðasta mánudag og á fimmtudag bárust gögn frá fyrstu tveimur félögunum - Pepsi-deildarfélögum Grindavíkur og Vals.
Þau gögn sem félögin skila núna, og reyndar er skiladagurinn 15, janúar, snúa að öllum öðrum þáttum en fjárhagslegum, þ.e. lagalegum og knattspyrnulegum þáttum, menntun og reynslu lykilstarfsmanna, þjálfaramenntun í meistaraflokki og yngri flokkum, uppeldi ungra leikmanna, mannvirkjaþáttum og fleiru.
Leyfisstjórn mun í framhaldinu fara yfir gögnin, gera viðeigandi athugasemdir ef þörf er á, og vinna að úrbótum með félögunum.
Leyfisgögn fyrir kvennalið Vals
Valur braut blað í sögu leyfiskerfisins með þeim gögnum sem skilað var á fimmtudag, því félagið hefur óskað eftir því að undirgangast leyfiskerfið einnig vegna þátttöku í Pepsi-deild kvenna, og skilaði inn viðeigandi gögnum hvað það varðar.
Félögin í Pepsi-deild kvenna undirgangast ekki leyfiskerfi og því ber þessi beiðni vitni um mikinn metnað Vals til að efla og styrkja gæðamál hvað varðar kvennaflokka félagsins.
Leyfisstjórn tók að sjálfsögðu vel í beiðni Vals og mun meta þau gögn sem snúa að kvennaliðinu á sama hátt og gögnin sem snúa að karlaliðinu. Ekki kemur þó til þess að umsóknin komi inn á borð leyfisráðs í mars, en leyfisstjórn mun gefa út hver líkleg niðurstaða hefði orðið, miðað við mat á fyrirliggjandi gögnum.