• fim. 18. nóv. 2010
  • Landslið

Tvö mörk en tap í Tel Aviv

Íslenskir stuðningsmenn á Laugardalsvellinum
Islenskir_ahorfendur

Það voru heimamenn í Ísrael sem höfðu betur gegn Íslendingum í vináttulandsleik sem fram fór í gær.  Lokatölur urðu 3 - 2 Ísraelsmönnum í vil og var grunnurinn af sigrinum lagður í fyrri í hálfleik því heimamenn gengu til leikhlés með þriggja marka forystu.

Byrjunin var slæm hjá íslenska liðinu og eftir um 15 mínútna leik höfðu heimamenn skorað tvö mörk, bæði af ódýrari gerðinni.  Þeir bættu svo við þriðja markinu þegar um hálftími var liðinn og útlitið heldur dökkt á Bloomfield Stadium í Tel Aviv.  Íslensku strákarnir fengu þó tvo góð færi til að laga stöðuna í fyrri hálfleiknum en þegar flautað var til leikhlés höfðu heimamenn þriggja marka forystu.

Síðari hálfleikur var mun betri af hálfu íslenska liðsins en það var svo á 78. mínútu sem að Alfreð Finnbogason minnkaði muninn og það sem eftir lifði leiks voru Íslendingar mun sterkari.  Kolbeinn Sigþórsson skoraði svo á 84. mínútu eftir góða sókn.  Ekki urðu mörkin fleiri þrátt fyrir ágætar tilraunir Íslendinga í þá átt.

Þetta var síðasti landsleikur liðsins á þessu ári en næsta verkefni er gegn Kýpur í undankeppni EM, 26. mars næstkomandi og verður leikið ytra.