• fim. 21. okt. 2010
  • Landslið

U19 karla - Öruggur sigur í fyrsta leik

UEFA EM U19 karla
U19_Landscape_Master_White_cmyk-01

Strákarnir í U19 byrjuðu undankeppni EM á því að bera sigurorð af jafnöldrum sínum frá Kasakstan.  Lokatölur urðu 4 - 0 Íslendingum í vil eftir að staðan hafði verið 3 - 0 í leikhléi.  Í hinum leik riðilsins gerðu Wales og Tyrkland jafntefli, 3 - 3, þar sem heimamenn í Wales jöfnuðu á 5. mínútu í uppbótartíma.

Grunnurinn að sigri Íslendinga var lagður strax í fyrri hálfleik.  Ólafur Karl Finsen kom strákunum yfir á 13. mínútu.  Andri Rafn Yeoman jók muninn á 24. mínútu og Guðmundur Þórarinsson skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á 33. mínútu.  Ólafur Karl bætti svo við sínu öðru marki og fjórða marki Íslendinga í síðari hálfleik og öruggur sigur því í höfn.

Næsti leikur liðsins er við heimamenn í Wales á föstudaginn en leikið verður við Tyrki næstkomandi mánudag.