Byrjunarliðið gegn Portúgal
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari hefur tilkynnt byrjunarlið Íslands sem mætir Portúgölum í undankeppni EM 2012 á Laugardalsvelli í kvöld. Uppselt er á leikinn, sem hefst kl. 19:45 og er í beinni útsendingu á RÚV.
Leikaðferðin er nokkuð hefðbundin 4-5-1 eða 4-3-3, með fjögurra manna varnarlínu og tvo varnartengiliði. Ljóst er að áherslan er á sterkan varnarleik, enda hafa Portúgalir á mörgum fljótum og flinkum leikmönnum að skipa.
Gunnleifur Gunnleifsson stendur í markinu og fyrir framan hann eru miðverðirnir Ragnar Sigurðsson og Kristján Örn Sigurðsson, sem jafnframt er fyrirliði. Hægri bakvörður er Grétar Rafn Steinsson og vinstri bakvörður Indriði Sigurðsson. Varnartengiliðir eru Ólafur Ingi Skúlason og Helgi Valur Daníelsson og fyrir framan þá í stöðu sóknartengiliðs er Eiður Smári Guðjohnsen. Á köntunum eru Birkir Már Sævarsson hægra megin og Theodór Elmar Bjarnason vinstra megin. Fremstur er svo Heiðar Helguson.