Ísland er komið í úrslitakeppni EM U21 karla!
U21 landslið karla hefur náð þeim frábæra árangri að tryggja sér sæti í úrslitakeppni Evrópumóts UEFA. Árangurinn náðist með tveimur 2-1 sigrum gegn Skotum í umspili um sæti í lokakeppninni, sem fram fer í Danmörku í júní 2011.
Seinni leikurinn í umspilinu fór fram á Easter Road í Edinborg í kvöld, mánudagskvöld. Skotarnir voru mun sterkari framan af og voru miklu meira með boltann í fyrri hálfleik. Í einni sókninni áttu þeir skot í stöng og tvö önnur færi, öðru skotinu var bjargað á marklínu og hitt fór naumlega framhjá stönginni. Markalaust var í fyrri hálfleik.
Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik og íslenska liðið lét meira að sér kveða. Það var síðan á 74. mínútu sem dró til tíðinda þegar Gylfi Sigurðsson skoraði frábært mark með hnitmiðuðu skoti frá vítateig í hornið fjær. Adam var ekki lengi í paradís eins og sagt er, því Skotarnir jöfnuðu metin beint úr miðjunni í kjölfarið. Leikmaður skoska liðsins sá að Arnar Darri í markinu var framarlega og smellti boltanum yfir hann og í markið, frá miðju.
Okkar strákar héldu þó frumkvæðinu og náðu forystu að nýju á 80. mínútu. Aftur var það Gylfi sem þar var að verki og í þetta sinn var um þrumufleyg af löngu færi að ræða, sem söng í netinu rétt innan við samskeyti skoska marksins, stórkostlegt skot og mark.
Meira var ekki skorað í leiknum og strákarnir okkar verðskuldað komnir áfram í keppninni. Íslenska U21 landsliðið er komið í úrslitakeppni EM. Merkur áfangi í íslenskri knattspyrnusögu.
Áfram Ísland, alltaf, alls staðar!