Fimm manns reyna að hitta þverslána frá vítateigsboganum
Í hálfleik á viðureign Íslands og Portúgals í undankeppni EM 2012, sem fram fer á þriðjudag, munu fimm heppnir vallargestir fá tækifæri til að spreyta sig í erfiðri en skemmtilegri þraut.
Þrautin felst í því að spyrna knetti frá vítateigsboganum (efst á boganum) með það fyrir augum að hitta þverslána. Hver og einn af þessum fimm fær aðeins eina tilraun, og vinningurinn ef það tekst er af glæsilegri tegundinni - ferð fyrir tvo til Evrópu með Icelandair!
Þessir fimm aðilar verða dregnir út af handahófi í gegnum miðasölukerfi Miða.is. Haft verður samband við þá á í síðasta lagi á mánudag, þannig að þeir geti verið klárir í slaginn rétt fyrir hálfleik á þriðjudag.
Aðeins verður dregið úr seldum miðum, þannig að þeir sem fá miða eftir öðrum leiðum (heiðursstúka, fjölmiðlar, samstarfsaðilar KSÍ), verða ekki í pottinum.
Á þessu ári hefur Icelandair staðið fyrir einum svona viðburði, en það var í hálfleik á viðureign Íslands og Noregs í september. Þá spyrntu 3 þátttakendur af 30 metra færi og enginn hitti. Á síðasta ári stóð Icelandair fyrir tveimur svona viðburðum, á leikjum Íslands við Holland og Noreg í undankeppni HM 2010, og var í báðum tilfellum um að ræða 3 þáttakendur, sem fengu eina tilraun hver til að hitta slána frá vítateig. Af þessum 6 spyrnum hittu 4 þverslána, og þar af allir 3 þátttakendurinir á leiknum við Noreg!
Hverjir verða dregnir út fyrir leikinn við Portúgal? Fylgist með ....
Mynd - Þrír þátttakendur á leik Íslands og Noregs í fyrra hittu allir slána og unnu þar með allir ferðavinning frá Icelandair.