U17 karla - Leikið við Armena í Keflavík kl. 16:00
Strákarnir í U17 leika lokaleik sinn í undankeppni EM í dag þegar þeir mæta Armenum í Keflavík. Leikurinn hefst kl. 16:00 eins og leikur Tyrkja og Tékka sem fer fram í Grindavík. Með sigri tryggir íslenska liðið sér sæti í milliriðlum.
Gunnar Guðmundsson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarliðið fyrir leikinn í dag og er það þannig skipað:
Markvörður: Bergsteinn Magnússon, fyrirliði
Aðrir leikmenn: Guðmundur Friðriksson, Sindri Kristinsson, Hjörtur Hermannsson, Þórður Jón Jóhannesson, Arnar Aðalgeirsson, Oliver Sigurjónsson, Aron Elís Þrándarson, Árni Vilhjálmsson, Ívar Örn Jónsson og Ragnar Bragi Sveinsson.
Fjalar Örn Sigurðsson er í leikbanni í þessum leik vegna tveggja gulra spjalda.
Efstu tvö sætin í riðlinum gefa þátttökurétt í milliriðlum og eiga allar þjóðirnar möguleika fyrir lokaumferðina. Sigur tryggir íslenska liðinu sæti í milliriðlum og jafntefli gerir það einnig að því gefnu að Tyrkir vinni ekki sigur á Tékkum. Þriðja sætið getur einnig gefið þar þátttökurétt en þær tvær þjóðir sem eru með bestan árangur í þriðja sætinu úr riðlunum þrettán, komast einnig í milliriðla. Er þá einungis reiknaður árangur gegn tveimur efstu liðunum í riðlinum.
Við hvetjum alla til þess að hvetja strákana í þessum hörkuleik í dag og minnum á að leikurinn hefst kl. 16:00 í Keflavík.