Jafnrétti í knattspyrnu
Knattspyrnusamband Íslands mótmælir harðlega ásökunum fréttastofu RÚV þess efnis að þriðjungur aðildarfélaga KSÍ mismuni börnum sem æfa knattspyrnu. Knattspyrnuhreyfingin skapar stúlkum og drengjum jöfn tækifæri til þátttöku í knattspyrnu.
Skipulag starfsemi yngri flokka innan aðildarfélaga KSÍ er að stærstum hluta í höndum sjálfboðaliða sem í flestum tilfellum eru foreldrar þeirra barna sem í hlut eiga og er með þvílíkum fréttaflutningi lögð rýrð á það góða starf sem þessir aðilar sinna og fráleitt er að halda því fram að börnum sé þar mismunað.
Sú fullyrðing að þriðjungur íþróttafélaga mismuni stúlkum varðandi æfingatíma í knattspyrnu er einfaldlega röng og RÚV til minnkunar að halda slíku fram án þess að leggja fram gögn sem styðja slíka fullyrðingu. Það skal tekið fram að ekki var leitað upplýsinga hjá Knattspyrnusambandi Íslands við vinnslu þessarar fréttar á RÚV.
Það var í takt við ósmekkleg vinnubrögð RÚV að sama dag og fréttin birtist vann U17 ára landslið stúlkna lið Litháen 14-0 í undankeppni EM 2011 og í síðustu viku vann U19 ára landslið stúlkna sigur í Evrópuriðli með fullu húsi stiga. Allar þessar stúlkur eru þjálfaðar af aðildarfélögum KSÍ og sést vel á árangri þeirra hversu vel er staðið að því starfi hjá félögunum. Árangur þessara stúlknaliða undanfarið er fyrst og fremst að þakka frábæru starfi knattspyrnufélaganna í landinu sem lagt hafa áherslu á vandað starf og jöfn tækifæri iðkenda.
Jafnframt skýtur það skökku við að RÚV skuli tortryggja jafnrétti innan aðildarfélaga KSÍ meðal barna þegar verulega hallar á íþróttir kvenna þegar kemur að fréttaflutningi hjá RÚV. Sá ójöfnuður í fréttaflutningi RÚV er mikið áhyggjuefni og ætti að vera rannsóknarefni mennta- og menningarmálaráðuneytis sem er fagráðuneyti íþróttamála.
Einnig er vert að geta þess að Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) hefur birt yfirlýsingu á heimasíðu sinni varðandi þennan fréttaflutning RÚV.